Heilbrigðisráðherra hefur birt í Stjórnartíðindum fagleg fyrirmæli embættis landlæknis um skyndigreiningarpróf sem heimilt verður að nota hér á landi. Skyndigreiningarpróf eru ekki jafn nákvæm og RT-PCR prófin sem notast hefur verið við hér á landi en þau eru ódýrari og hægt verður að fá niðurstöðu úr þeim á innan við 30 mínútum.
Skuli Covid-19 smit vera greint með skyndigreiningarprófi verður að staðfesta það með RT-PCR prófi en þau verða einungis notuð í undantekningartilvikum vegna sérstakra aðstæðna, t.d. þegar fólk þarf að framvísa nýlegu vottorði um neikvæða niðurstöðu veiruprófs á landamærum erlendis og þegar grunur um smit kemur upp á báti.
Einungis er heimilt að nota skyndigreiningapróf sem hlotið hafa tilskilin leyfi heilbrigðisráðuneytisins til að tryggja áreiðanleika rannsóknarniðurstaðna og að nauðsynlegar upplýsingar berist til sóttvarnalæknis í samræmi við kröfur sóttvarnalaga.