fbpx
Sunnudagur 12.janúar 2025
Fókus

„Sagan er allt í kringum okkur“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 14. febrúar 2021 19:30

Mynd/Aðsend

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mér finnst þetta alveg ótrúlega skemmtilegt og með því skemmtilegra sem ég heft gert,“ segir Viktoría Hermannsdóttir dagskrárgerðarkona um gerð þáttanna Fyrir alla muni þar sem hún ásamt Sigurði Helga Pálmasonar, safnstjóra og dellusafnara, rekur sögu gamalla muna, en þættirnir hafa notið mikilla vinsælda.

Munurinn aukaatriði

„Já, þáttunum hefur verið vel tekið – bæði fyrri þáttaröðinni og svo núna fyrstu tveimur þáttunum sem hafa verið sýndir í þeirri seinni,“ segir Viktoría.

Í þáttunum skoða Viktoría og Sigurður gamla hluti sem sagðir eru tengjast manneskju eða atburði úr Íslandssögunni. Þau kanna sannleiksgildi þeirra fullyrðinga, líta aftur til liðinnar tíðar og ráðfæra sig við sérfræðinga.

„Þannig verður munurinn yfirleitt algjört aukaatriði en við kynnumst einhverjum mögnuðum sögum í leiðinni.“

Þekktust ekki neitt

Tilurð þáttanna má rekja til þess að Viktoría fékk Sigurð í stutt viðtal í útvarpinu. „Siggi á upprunalegu hugmyndina. Hann kom í viðtal til mín í útvarpsþátt sem ég var að gera um safnara. Hann spurði mig eftir þetta 10 mínútna spjall í þættinum hvort ég væri til í að gera þátt með honum og ég var nú heldur betur til í það.

Við hlæjum oft að því í dag af því við þekktumst ekki neitt en vorum bæði svo hrifin af þessari hugmynd sem hann hafði þá verið búinn að ræða við Skarphéðin Guðmundsson dagskrárstjóra.

Við þróuðum þáttinn svo áfram og hann breyttist frá upprunalegu hugmyndinni að mörgu leyti. Siggi þekkir safnaraheiminn út og inn og rak safnarabúð í nokkur ár, ég er hins vegar svona grúskari og kem inn með fjölmiðlabakgrunn þannig að við erum gott teymi.“

Viktoría segir þetta verkefni að mörgu leyti ólíkt öðrum sem hún hefur tekið að sér.

„Mér finnst þetta alveg ótrúlega skemmtilegt og með því skemmtilegra sem ég heft gert. Það er svo gaman að vinna að þessum þáttum, það er mikil heimildavinna sem leiðir okkur í alls konar áttir og mjög nördalegt á köflum sem er svo skemmtilegt.“

Heilmikið ferðalag

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem hún lítur aftur til fortíðar, eða til sögu einstaklinga.

„Ég hef reyndar fjallað um sögulega hluti í útvarpsþáttum sem ég hef gert en það er eitthvað við fortíðina og sögur fólks sem heillar mig alltaf – sama á hvaða tíma það er.

Mér finnst líka bara svo magnað hvað sagan er allt í kringum okkur og við getum skoðað hana með því að skoða einhvern hlut sem kannski virkar nauðaómerkilegur í fyrstu en fer með okkur í heilmikið ferðalag um söguna.“

Viktoría segir viðbrögðin við þáttunum hafa verið frábær.

„Algjörlega frábær, bæði við fyrstu þáttaröðinni og svo við þeim tveimur þáttum sem hafa verið sýndir í annarri þáttaröð. Við höfum fengið mikið af ábendingum, bæði sem tengjast umfjöllunarefnum og eins frá fólki sem á hluti sem það vill að við skoðum. Okkur finnst frábært að heyra frá áhorfendum og hvetjum fólk til að setja sig í samband við okkur. Eins erum við með Facebook-hóp sem heitir Fyrir alla muni þar sem við setjum inn aukaefni sem tengist þáttunum.“

Sett fram á mannamáli

Viktoría segir erfitt að velja eitt umfjöllunarefni þáttanna sem standi upp úr. Öll séu þau áhugaverð.

„Mér finnst þetta allt áhugavert og dálítið erfitt að velja á milli. Í fyrstu þáttaröð fundust mér kvikmyndir Evu Braun sem hún tók á Íslandi mjög áhugaverðar. Það hafði lítið sem ekkert verið fjallað um það áður og það var frekar óhugnanlegt að sjá hvað þetta var allt í raun nærri okkur.“

En Eva er hvað þekktust vegna eiginmanns síns, Adolfs Hitler.

„Í þessari þáttaröð situr mest í mér sagan að baki franska skipinu Pourquoi-Pas? sem fórst í aftakaveðri undan Mýrum í Borgarfirði árið 1936. Ég þekkti þessa sögu ekkert áður en við fórum að skoða þetta og maður sér hvað þetta hefur tekið á marga.

Það er líka ótrúlegt hvað það eru margir sem hafa nánast gert það að ævistarfi að rannsaka skipið og halda minningunni á lofti. Eins er þáttur sem fjallar um mun sem er sagður vera tengdur Magnúsi Einarssyni frá Hnaus, listamanni sem lítið hefur verið fjallað um. Þar kom í ljós alls konar áhugavert og svo er fallegt hvað sá sem fann muninn er búinn að tengjast Magnúsi sterkum böndum í gegnum hann með því að kynna sér sögu hans.

Við Siggi og Halldór, framleiðandinn okkar, gefum okkur mikinn tíma í að finna eins mikið og við getum sem tengist hverjum þætti og það getur oft leitt af sér skrautlegar niðurstöður. Ég held að enginn þáttur hafi endað eins og við sáum hann fyrir okkur í upphafi þó að flækjurnar séu auðvitað misspennandi.

Við reynum að setja þetta fram á mannamáli af því við erum algjört áhugafólk um söguna og alls engir fræðingar og viljum að sem flestir hafi gaman af.

Við erum ekki að gera sjónvarpsþætti sem eru sérstaklega ætlaðir fyrir sagnfræðinga þó að vissulega sé gaman að þeir kunni að meta þættina. Sagan okkar er svo áhugaverð og það er gaman að þekkja hana.

Svo verð ég líka að nefna hvað er gaman við þættina að hitta alla sérfræðingana á söfnunum – þar er fólk sem býr yfir svo mikilli þekkingu sem kannski ekkert margir vita endilega af. Mjög dýrmætt fyrir okkur.“

Fyrir alla muni er á dagskrá  á sunnudögum kl. 20.25 en einnig má nálgast þættina í vefspilara RÚV á ruv.is

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur ástralska hjartaknúsarans ekki sáttir – „Hélt að hann væri einn af góðu strákunum“

Aðdáendur ástralska hjartaknúsarans ekki sáttir – „Hélt að hann væri einn af góðu strákunum“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Paris Hilton birtir sláandi myndband af heimili sínu

Paris Hilton birtir sláandi myndband af heimili sínu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Er skjáfíkn raunverulegur sjúkdómur?

Er skjáfíkn raunverulegur sjúkdómur?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Davíð Goði: „Mér datt aldrei í hug að ég myndi missa heilsuna eða standa andspænis dauðanum aðeins 26 ára gamall“

Davíð Goði: „Mér datt aldrei í hug að ég myndi missa heilsuna eða standa andspænis dauðanum aðeins 26 ára gamall“