Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur staðfest í nýrri tilkynningu að manni sem fannst stórslasaður fyrir utan hús í Rauðagerði undir miðnætti í gærkvöld og lést skömmu síðar á Landspítalanum var ráðinn bani. Í tilkynningunni segir:
„Karlmanni á fertugsaldri var ráðinn bani í austurborginni um miðnætti í gærkvöld, en tilkynning um málið barst lögreglu kl. 23.57. Áverkar eftir skotvopn fundust á líki mannsins. Rannsókn málsins er í algjörum forgangi hjá embættinu og er í einn haldi vegna hennar. Að öðru leyti er vísað til tilkynningar lögreglu um málið frá því fyrir hádegi.“
Frekari upplýsingar um málið berast síðar frá lögreglu.
Einn maður er í haldi lögreglu vegna málsins. Sá látni var á fertugsaldri og erlendur. Maðurinn sem situr í haldi lögreglu er einnig á fertugsaldri og erlendur.
Fyrri tilkynning lögreglu um málið var eftirfarandi:
„Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð að húsi í austurborginni um miðnætti í gærkvöld, en þar var tilkynnt um slasaðan karlmann utan við húsið. Endurlífgunartilraunir hófust strax á vettvangi og í kjölfarið var maðurinn fluttur á Landspítalann, en var úrskurðaður látinn skömmu eftir komuna þangað. Maðurinn var á fertugsaldri.
Rannsókn málsins er á frumstigi, en einn er í haldi í þágu hennar.
Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.
Búast má við annarri tilkynningu frá lögreglu þegar rannsókn málsins vindur fram, líklega síðar í dag.“
Samkvæmt frétt Vísis var maðurinn skotinn til bana fyrir utan heimili sitt. Lögreglan handók mann, grunaðan um aðild að málinu, í Garðabæ, skömmu eftir að að sá sem varð fyrir árásinni fannst fyrir utan hús sitt í Rauðgerði.
Samkvæmt vef Fréttablaðsins er hinn látni frá Albaníu en var búsettur hérlendis.