fbpx
Föstudagur 07.febrúar 2025
Fréttir

Peppa fólk í fátækt – Halda barnaafmæli á kaffistofunni – „Þetta var nóg fyrir hann.“

Erla Hlynsdóttir
Laugardaginn 13. febrúar 2021 10:00

Góður hópur Pepp-ara á kaffistofunni: Gyða Dröfn Hannesdóttir, Hildur Oddsdóttir, Ásta Þórdís Skjalddal, Hrefna María Heiðarsdóttir, Helga Hákonardóttir og Jóna Marvinsdóttir. Mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sjálfboðaliðar hjá Pepp Ísland upplifa valdeflingu við að aðstoða annað fólk sem glímir við fátækt. Fátækt fólk verður fyrir margs konar mismunun og er jafnvel dæmt fyrir að ganga í fallegum fötum.

„Fátækt er svo miklu meira en skortur á peningum. Fátækt er skortur á stöðu í samfélaginu. Fátækt er valdaleysi,“ segir Ásta Þórdís Skjalddal, samhæfingarstjóri hjá Pepp Ísland, grasrót fólks í fátækt.

„Það endar enginn í þeirri stöðu að lenda í fátækt nema eiga að baki einhver áföll í lífinu. Samfélagið dæmir oft hart þá sem búa við fátækt, fólk er sagt eiga sjálft sök á fátæktinni hvort sem það eigi að vera út af leti eða óreglu. Það velur enginn þetta hlutskipti. Oft er um að ræða langtíma veikindi, fatlanir, einstæða foreldra, fólk sem lendir á milli í kerfinu. Þegar þú ert kominn á þennan stað ertu ekki fær um að rísa upp einn og óstuddur heldur þarf samfélagið að hjálpast að,“ segir hún.

Pepp Ísland, samtök fólks í fátækt, eru grasrótarstarf EAPN á Íslandi (European Anti-Poverty Network) og eru öllum opin sem hafa reynslu af fátækt og félagslegri einangrun, og vilja taka þátt í öflugu starfi til að breyta aðstæðum fólks sem býr við fátækt og viðhorfum samfélagsins til þess.

Nafnið er íslenskun á skammstöfuninni PeP sem stendur fyrir People experiencing Poverty, og þykir hafa afar jákvæðan blæ enda fátt jákvæðara en pepp.

Pepp starfar með jákvæðni og valdeflingu sem meginmarkmið og gengur út á að fólk sem býr við fátækt sæki valdeflingu í að tala sínu eigin máli á opinberum vettvangi og aðstoða aðra í svipuðum aðstæðum. Þá eru sjálfboðaliðar og þeir sem taka reglulega þátt í starfinu kallaðir Pepparar.

Ásta Þórdís Skjalddal bjó sjálf lengi við fátækt. Hún segir fátækt vera birtingarmynd valdaleysis í samfélaginu og flestir sem glími við fátækt eigi að baki persónuleg áföll. Mynd/Ernir

 Valdefling og félagsskapur

Síðasta sumar stóðu Pepp Ísland og Sumarborgin 2020 fyrir Sumarsamveru í Mjóddinni og stóð verkefnið yfir í 8 vikur. Markmiðið var að rjúfa félagslega einangrun í kjölfar COVID en slík einangrun hafði mikil áhrif á jaðarsetta hópa, sér í lagi fólk sem ekki stóð vel félagslega eða fjárhagslega. Verkefnið gekk afar vel og komu yfir hundrað manns yfir daginn þegar mest lét, en fólk gat komið og fengið sér kaffi og kökur án endurgjalds, og rofið einangrunina.

Pepp Ísland tók svo við rekstri húsnæðisins í haust og er nú með opið hús tvisvar í viku. Ásta býr sjálf að áralangri reynslu af fátækt en auk hennar er fjöldi sjálfboðaliða sem kemur að starfinu.

Enn þann dag í dag er mikil skömm sem fylgir því að vera fátækur. Ásta segir það hafa tekið tíma fyrir fólk í félagsskapnum að ná sáttum við hugtakið. Hins vegar hefur það ítrekað komið fyrir að fólk í fátækt sem stígur fram í fjölmiðlum fær bágt frá fjölskyldumeðlimum og það fær að heyra að það sé að kalla skömm yfir fjölskylduna. Markmiðið með starfi Pepp er hins vegar að valdefla fólk.

Blaðamaður mælir sér mót við Ástu og hóp sjálfboðaliða eftir að kaffihúsinu er lokað þann daginn. Sumir vilja vera með á hópmynd og aðrir ekki. Við ætlum ekki heldur að binda okkur við hver segir hvað. Hér er það málefnið sem fær að njóta sín. Við setjumst niður og spjöllum.

Kaffi eða kvöldmatur

– Ég á til að einangrast rosalega. Ég kem hingað til að sækja í félagsskapinn. Hér er alltaf tekið vel á móti mér. Án Pepp færi ég örugglega ekki út úr húsi.

– Ég er almennt félagslega virk en út af COVID hefur svo margt lokað. Það er gott að koma hingað og hitta stelpurnar.

– Áður vorum við alltaf í Breiðholtskirkju en þegar fyrsta bylgjan kom var öllu skellt í lás.

– Fyrir sléttu ári sat ég bara heima og horfði á vegginn.

– Það var svakalega mikil ánægja með kaffihúsið í sumar. Hingað kom fólk úr öllum áttum, hælisleitendur, eldri borgarar, öryrkjar, heimilislausir. Öllum lynti vel saman. Eina sem gæti kallast vandamál er að stundum koma upp tungumálaörðugleikar.

– Ég er uppalin í Breiðholtinu og þykir vænt um hvað kaffihúsið hér er komið með gott orðspor. Ég er virkilega stolt af því að koma hingað og taka á móti skjólstæðingum. Það er mjög gefandi fyrir mig að geta tekið þátt á þennan hátt.

– Mörgum finnst notalegt að geta komið hér og fengið kaffi og köku sem kostar ekki neitt.

– Margir geta ekki leyft sér að fara á kaffihús með krakkana. Það er bara of dýrt.

– Muniði þegar vinkonuhópurinn manns ætlaði að hittast á kaffihúsi og maður annað hvort vildi ekki eða gat ekki sagt hópnum frá því að maður ætti engan pening? Ég hugsaði stundum með mér að ef ég myndi kaupa kaffi og köku þá yrði ekkert í matinn um kvöldið. Ég keypti þá stundum bara kaffi. Eða ekkert.

– Þetta þarf ekki einu sinni að vera vinahópur. Oft vill maður ekki segja fjölskyldunni frá eða kannski samnemendum. Ég fékk oft að heyra það þegar samnemendurnir fóru að læra saman á kaffihúsi að ég væri þessi skrýtna því ég fékk mér alltaf vatn.

Afmælisboð á kaffihúsinu

– Ég man líka eftir því að sleppa því að fara í afmæli því ég hef ekki haft efni á afmælisgjöf.

– Það hafa oft verið haldin afmæli hér á kaffistofunni, bæði fyrir Peppara og börnin okkar. Ég man líka eftir því þegar yngsti strákurinn minn varð sjö ára í fyrra. Ég sá ekki fyrir mér að geta haldið upp á afmælið hans en við héldum svo upp á það í Breiðholtskirkju. Hann hafði oft komið með mér í kaffi þangað og fannst þetta æðislegt afmæli. Þetta var nóg fyrir hann.

– Dóttir mín vildi líka halda upp á sitt afmæli hér. Henni líður vel hérna. Hún vissi að Pepparar klikka ekki!

– Það er svo góður andi hérna og góð samstaða. Ef maður hefur átt slæma nótt eða slæman dag er gott að koma hingað, setja upp bros fyrir skjólstæðingana sem koma hingað og hálftíma seinna er maður orðinn skælbrosandi í alvörunni.

– Stundum er hreinlega röð hér fyrir utan áður en við opnum.

– Það var mikil ásókn fyrir jólin. Venjulega hefðum við verið að elda mat eins og við gerðum fyrir COVID. Þá var alltaf kvöldmatur á fimmtudögum. Í staðinn settum við matinn í kerrur hér fyrir utan og fólk gat þá bara komið og fengið sér.

– Sumir sem koma halda að þeir þurfi einhvern veginn að sanna að þeir séu fátækir og ætla að rífa upp alls konar pappíra til að sýna en þess þarf ekki hér.

– Hingað eru allir velkomnir. Við sjálfboðaliðarnir erum í sömu sporum og skjólstæðingarnir, við annað hvort erum eða höfum verið í fátækt.

– Út af þessari reynslu okkar getum við oft gefið fólki hagnýt ráð. Við höfum líka sýnt fólki öðruvísi stuðning. Ein fór með móður í viðtal hjá skólastjóra og önnur fór með móður í viðtal hjá barnavernd.

– Við erum þá að reyna að breyta valdahlutfallinu í herberginu. Ef fólk er að fara á fund þar sem það á mikið undir því að hinn aðilinn samþykki eitthvað þá getur skipt miklu að hafa einhvern með sér, jafnvel þó viðkomandi sitji bara þarna og segi ekkert.

Dæmum engan hér

– Ég var alltaf föst í því að ég væri bara blönk. Fátækt er svo mikið skammaryrði. Þó ég ætti ekki fyrir mat og hefði fengið aðstoð frá Mæðrastyrksnefnd þá sagði ég sjálfri mér að ég væri bara blönk. Þegar þú ert búin að vera blönk í mörg ár þá ertu auðvitað fátæk.

– Mamma mín getur enn ekki viðurkennt að hún glímdi við fátækt í áratugi. Hún gaf okkur krökkunum alltaf fyrst að borða og ef það var ekki afgangur þá borðaði hún ekki. Þetta er enn svo mikið „stigma“.

– Ég man hvernig það var í fyrsta skipti þegar ég þurfti að fara að leita að ókeypis mat. Þetta var mjög niðurlægjandi. Hingað kemur yndisleg áttræð kona reglulega og við pössum okkur að láta hana alltaf fá eitthvað heim með sér í poka því við vitum hvernig staðan er hjá henni.

– Ég ólst upp við þetta. Ég er þessi fátæka manneskja. Ég myndi frekar labba hér tómhent út en að láta einhvern annan labba tómhentan út.

– Við dæmum engan.

– Ég fór á bíl í Samhjálp um daginn að sækja mat. Ég hafði aldrei áður séð manninn sem raðaði inn í bílinn og hann sagði við mig: Þú getur ekki verið fátæk fyrst þú átt svona bíl. Hvað vissi hann um hvort þetta var minn bíll?

– Ég á fullt af fötum sem ég þori stundum ekki að nota því þá fer fólk kannski að dæma mig, eins og ég sé ekki fátæk í alvörunni.

– Meirihlutann af mínum fötum hef ég fengið gefins. Ég er núna í Nike-peysu en mér var gefin hún.

– Rifin föt eru dýrari en heil föt. Oft eru rifin föt hreinlega í tísku. Það er enginn skortur á notuðum heilum fötum á Íslandi. Ef það er hægt að tala um einhverja birtingarmynd fátæktar þá myndi ég segja að það væri hjá konum á ákveðnum aldri sem eru með sítt hár því þá þurfa þær ekki að borga fyrir klippingu og ef þær eru með litað hár þá er það heimalitað. Þetta eru konur sem sjá ekki fram á að geta tekið þennan pening af heimilispeningunum. Ég var sjálf með sítt hár í tuttugu ár og klippti bara neðan af því í baði þegar það var blautt.

– Ég var lengi vel alltaf í sömu fötunum. Þegar ég var búin að valdeflast ákvað ég að láta ekki Jón úti í bæ ákveða hvernig ég er klædd og fór að nota fallegu fötin mín.

– Oft er maður dæmdur fyrir að vera með varalit, því maður hefði átt að eyða peningunum frekar í mat. Ég fór í sjónvarpsviðtal og var með varalit en ég átti ekki einu sinni þennan varalit.

– Þótt þú sjáir einhvern með góðan farsíma þá þýðir það ekki að viðkomandi búi ekki við fátækt. Flestir eiga þokkalegan síma en enga tölvu. Síminn er þá líka tölva. Allt sem þú þarf að sækja um þarftu að gera rafrænt í dag.

– Stundum á fólk svo afmæli og fólk slær saman til að gefa því síma eða góða úlpu.

– Muniði eftir konunni sem kom hingað í nýrri fínni úlpu og hún var alltaf að afsaka sig, sagðist hafa fengið hana gefins?

– Það er engin reisn í því að þurfa alltaf að afsaka sig.

– Ég man eftir konunni sem fékk hjá okkur notaða fjólubláa Cintamani-úlpu. Hún grét.

– Hún grét endurtekið af þakklæti. Henni fannst þetta of fínt fyrir sig.

– Síðan er það þegar maður er á kassa í Bónus og finnst maður þurfa að afsaka að kaupa ekki allt hollt. Finnst maður þurfa að segja frá því að barnið manns eigi afmæli og þess vegna sé maður að kaupa kókópöffs.

 

Sjálfboðaliðarnir tínast út hver af öðrum. Allir kveðja hlýlega og þakka hver öðrum fyrir daginn. Andleg næring þessa dags er komin til skila.

 

Umfjöllunin birtist fyrst í helgarblaði DV sem kom út 5. febrúar 2021.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Niðursveifla í rússnesku efnahagslífi – Mörg hundruð bílasölur leggja upp laupana

Niðursveifla í rússnesku efnahagslífi – Mörg hundruð bílasölur leggja upp laupana
Fréttir
Í gær

Alfreð átti að vera í nauðungarvistun þegar morðin voru framin

Alfreð átti að vera í nauðungarvistun þegar morðin voru framin
Fréttir
Í gær

Björgunarsveitir víða að störfum og Vellirnir á floti

Björgunarsveitir víða að störfum og Vellirnir á floti
Fréttir
Í gær

Saklaus af kynferðisbroti en fær ekki hærri bætur

Saklaus af kynferðisbroti en fær ekki hærri bætur