Ellý Ármannsdóttir spá- og listakona er engri lík. Orkan, jákvæðnin og einlægnin lýsir upp allt í kringum hana. Hlynur Jakobsson tilvonandi eiginmaður hennar er eins einlægur og opinn og Ellý. Þau settu sér skýrar reglur strax í byrjun sambandsins. Heiðarleiki og falleg samskipti eru mikilvægust. Ellý og Hlynur eru í forsíðuviðtali nýjasta tölublaðs DV sem kemur út á morgun.
Í viðtalinu ræða hjónaleysin tilhugalífið, undarleg stefnumót, mikilvægi þess að hætta að reyna að breyta öðrum og Ellý ræðir skömmina sem hún upplifði við að verða gjaldþrota. Einlægt og fallegt viðtal sem tilvalið er að lesa á sjálfan Valentínusardaginn á sunnudaginn til að minna sig á að ástin er það allra besta.
Útbrot og áfengi
Hlynur og Ellý höfðu bæði verið einhleyp í nokkur ár þegar þau kynntust, með tilheyrandi stefnumótum og tindergangi. Aðspurð um verstu stefnumótin svara Hlynur. „Ég man eftir einu skrítnu. Ég var búinn að mæla mér mót við konu en deginum áður en við ætluðum að hittast í fyrsta skipti sá ég hana sitja í bíl fyrir utan heima hjá mér. Það var skrítið. Ég hætti við.“
Ellý hefur fengið alls konar undarleg skilaboð. „Ég fór á Tinder. Ég lenti ekki í neinu hryllilegu en ég fékk skrítin skilaboð frá manni sem sagði að hann langaði að bjóða mér út á stefnumót því ég hefði verið uppáhaldsþulan hans, en hann vildi ekki gera það því hann væri svo hræddur um að verða fyrir vonbrigðum. Svo var einn sem drakk sig allt of fullan og steyptist allur út í rauðum útbrotum.“
Undarlegu stefnumótin leiddu þau þó að lokum til hvors annars – með smá hjálp frá móður og systur Hlyns. „Það hefur aldrei verið neitt drama eða rifrildi hjá okkur.
Allt fyrsta árið beið ég eftir sprengjunni,“ segir Ellý.„Það er eitt að rífast en annað að vera heitt í hamsi og ræða um hlutina,“ segir Hlynur. „Svo skiptir máli að skilja manneskjuna og hætta að reyna að breyta fólki. Ég vakna stundum klukkan sex á morgnana og fer að mála. Hann er ekki að skipta sér af því. Ég var að kenna líkamsrækt og lyfta, hann sagðist ekki gera það. Ég minntist ekki orði á það og bað hann aldrei að koma með mér. Þremur mánuðum seinna sagðist hann vilja prófa og við höfum alltaf farið saman síðan.“„Ellý er í sjálfstæðum rekstri og það er alls konar sem hún gerir sem ég skil ekki. Ég segi ekki við hana ekki kaupa fleiri striga þó þeir komist varla fyrir. Ég tek tillit til þess hver hún er.“
Týndi auganu
Hlynur er blindur á öðru auga og hefur verið frá unglingsaldri. Ellý hafði ekki hugmynd um það þegar þau Hlynur fóru að hittast.„Ég stal bílnum og keyrði á vegg þegar ég var 14 ára. Ég var villingur. Rúðan splundraðist og ég varð blindur á öðru auga og fékk marga skurði í andlitið. Í dag er ég með gerviauga.“
„Ég vissi það ekki þegar við kynntumst. Manstu eftir því þegar við fórum á deit og þú tókst það úr?“
„Ég missti það,“ segir Hlynur. „Stundum fer augnhár bak við augað og þá þarf ég að taka skelina úr.“
„Hann var að skola skelina en svo missti hann hana og spyr mig: hvar er augað? Ég fór bara að leita,“ segir Ellý og hlær. „Þetta er bara yndislegt. Það var smá aðlögun. Hann rak sig í mig einu sinni í byrjun sambandsins og ég fékk glóðarauga,“ segir Ellý og vísar í að Hlynur er ekki með fullt sjónsvið.
„Ég var með glóðarauga og hann með gerviauga. Það var samt bara fyndið. Það góða við Hlyn er líka að hann skilur svo margt. Hann var með yfir 100 ör í andlitinu eftir slysið. Hann skilur áföll. Hann skilur svo margt sem ég er að reyna að útskýra.