Bakflæðilyfið sívinsæla, Rennie, er nú ófáanlegt hér á landi. Hálfdán Gunnarsson, framkvæmdastjóri Parlogis, dreifingaraðila Rennie hér á landi segir að framleiðslutafir hjá framleiðandanum Bayer sé sökudólgur Rennie skortsins. Má rekja framleiðslutafirnar til heimsfaraldurs Covid-19. Að hans sögn er þó von á Rennie aftur til landsins í næstu viku.
Á heimasíðu Lyfjastofnunar er sérstakur kafli um lyfjaskort, sem er viðvarandi vandamál. Þar segir að orsakir lyfjaskorts séu margvíslegar. Um vandamál í framleiðsluferli geti verið að ræða, skortur á ákveðinni útfærslu lyfs, en þau eru gjarnan gefin út í mismunandi formi eða styrkleika. Um aukna eftirspurn geti verið að ræða, lyf geti verið afskráð, vandamál geti komið upp í flutningi viðkvæmra lyfja. Þá geta breytingar á lyfjalöggjöf ýmist hér heima eða erlendis orsakað skort, framleiðsluferlar eða bara gömlu góðu tafirnar á sendingum.
Á heimasíðu Lyfjastofnunar má jafnframt finna lista yfir þau skráningarskyldu lyf sem eru ófáanleg hér á landi. All flest eiga sér samheitalyf og eru því fáanleg undir öðru nafni, eða eru til í öðrum styrkleika. Skortur á öðrum lyfjum er veitt með því að veita undanþágu fyrir öðrum samskonar lyfjum.
Á þeim lista eru nú 30 lyf. Af þeim eru níu sem eru ófáanleg með öllu, í tíu tilfellum mæla lyfjafræðingar með undanþágulyfi, fimm lyfin eru fáanleg í öðrum styrk og sex eru fáanleg undir öðru nafni (samheitalyf).
Eitt lyfið sem ekki hefur verið fáanlegt, samkvæmt vefsíðu Lyfjastofnunar síðan í febrúar í fyrra er Vanquin, sem notað er til meðferðar á njálgi.