Lóa Pind Aldísardóttir fjölmiðlakona hefur mátt þola holskelfu neikvæða skilaboða frá veganistum í kjölfar þáttaraðar sinnar „Kjötætur óskast!“ sem sýndir voru á Stöð 2 nýlega. Í þáttunum var fylgst með fjórum fjölskyldum prófa að gerast vegan í einn mánuð. Lóa Pind tók sjálf þátt í tilrauninni en eftir þessar fjórar vikur taldi hún sig ekki geta haldið áfram að vera vegan.
Þættirnir fengu harða gagnrýni í Facebook-hópnum Vegan Ísland. Vefur Hringbrautar hefur gert þessari gagnrýni skil, gagnrýni sem Lóa Pind sjálf gefur í skyn að sé að hluta skítkast og ómálefnalegt niðurrif. Ljóst er einnig að upplifun Lóu Pind af því að gerast vegan hefur farið fyrir brjóstið á veganistum, en hún lýsti henni meðal annars svona á Facebook-síðu sinni í vikunni:
„Vantaði þriðju víddina. Fannst eins og vélindað væri að þorna upp. Ég hef upplifað svona vélindaþornun áður – þegar mig hefur vantað eitthvað af eftirtöldu í hina heilögu þrenningu: Nautakjöt + rauðvín + kók light.“
Júlía Sif Liljudóttir, sem hefur gefið út matreiðslubók fyrir grænkera, gefur þáttunum eftirfarandi umsögn:
„Mér fannst þetta alveg glataðir þættir. Bara verið að einblína á hvað veganismi er glataður og hvað maturinn er vondur. Fengu enga hjálp nema ehv „kokka“ heim til sín eitt kvöld sem voru ekki einu sinni allir vegan. Mér finnst líka mjög skrýtið ef að Lóa var bara að grínast alla þættina með að finnast vegan svona glatað… En allavega illa upp sett og látið líta út fyrir að vera ógeðslegur matur og erfiðast í heimi að skipta yfir í vegan.“
Runa af neikvæðum athugasemdum um þáttinn hefur birst í hópnum, meðal annars þessar: Mér finnst magnað að gera þátt um „veganisma“ en vita samt ekki hvað veganismi er. Ýtir enn frekar undir ranghugmyndir almennings um að veganismi sé mataræði.“ – „Þetta var bara einhver allsherjar misskilningur efnistökin í þessum þætti. Fannst bara yfirhöfuð gert lítið úr veganisma og Veganbúðin sem sponsor var ekki að fá það sem var örugglega lagt upp með. Ekkert um velferð dýra, bara dýrafret, hvað allt er mikið ógeð, erfitt og heilsuspillandi.“
Eins og segir í annarri frétt á vef Hringbrautar svaraði Lóa Pind fyrir sig í hópnum og segir meðal annars:
„Mér er fullkunnugt um – enda gerði ég fimm þátta sjónvarpsseríu um það – að það er staðreynd að kolefnisspor grænkeramatar er minna. En það er ofsatrú þegar rörsýn er farin að hindra fólk í að eiga eðlileg skoðanaskipti. Þegar fólk plantar sér á háan hest og telur sig hafa höndlað sannleikann sem leyfir því að drulla yfir hina trúlausu. Þú færð engan í lið með þér með þeirri aðferð. Varðandi faglegheit. Það er langþekkt aðferð þáttastjórnanda í heimildaþáttum að taka sjálfir þátt í eigin tilraunum – að setja sig í spor viðmælenda.“
Lóa Pind fer síðan yfir málið í Facebook-færslu í gær. Þar kemur fram að þættirnir hafi leitt í ljós að grænkerafæðið hafi hentað fjórum af þeim níu sem tóku þátt í tilrauninni en ekki fimm þeirra. Lóa segist bæði hafa fengið ómálefnalega og málefnalega gagnrýni og hafi hún reynt að svara eftir bestu getu. Í færslunni kemur einnig fram að Lóa Pind hefur jafnvel fengið á sig skítkast frá fólki sem hefur ekki séð þættina:
„Hef smá þörf eftir síðasta sólarhring til að hrista af mér skítakleprana! Reyndar, ef ég hefði viljað sigla lygnan sjó í þessu lífi – þá hefði ég líklega ekki valið mér þann starfsvettvang að fjalla í sjónvarpi um t.d. sjálfsvíg, Hrunið, múslima á Íslandi, innflytjendur – og nú síðast kjötætur í vegantilraun. Það var galið gaman að fá að fylgjast með fjórum fjörmiklum fjölskyldum taka 28 daga áskorun um að borða engar dýraafurðir – sem varð til að okkkur tókst næstum öllum að snarminnka kolefnissporið af mataræðinu. En niðurstöður heilsufarsmælinga á þessum litla hóp bentu til að þetta mataræði hentaði okkur misvel. Grænkerafæðið virtist henta 4 af 9 fullorðnum tilraunadýrum ljómandi vel en síður okkur hinum 5. HannÚlfur, síkáti sjoppustjórinn, kom einna best út og á myndinni má sjá hann glaðbeittan með ígildi þeirrar fitu sem rann af honum á veganfæðinu. Skondið samt að konan hans, sjarmatröllið hún Annska, fékk allt aðrar niðurstöður – en kom þó í heildina vel út. Mögulega hafa einhver ykkar rekið augun í eldheita samræðu milli veganista hér á internetinu þar sem áðurnefndir skítakleprar hafa dunið á mér og þáttunum. Og nokkuð ljóst að þessar niðurstöður (og margt fleira í þáttunum) hafa reitt margan veganistann til reiði. Þar hefur líka verið málefnaleg gagnrýni og ég hef reynt að svara eins mörgum og ég hef komist yfir. Skondnust fannst mér þó athugasemdin frá konunni sem fannst umfjöllun um þættina “vægast sagt léleg og lágkúruleg. Vesalings konunni til skammar.” Altso mér. En hafði þó ekki séð þættina.
Tvennt í viðbót: a) þessi tilraun gerði mig ekki að grænkera. En hún varð til þess að breyta mataræði okkar fjölskyldunnar þannig að kolefnissporið er núna umtalsvert minna en fyrir tilraun. b) Markmið þessarar þáttaraðar var að tala við okkur meðal-Íslendingana, sem borðum kjöt og ost og fisk og elskum það. Það er nefnilega held ég ekki vænleg leið að hjarta kjötætu að drulla yfir kjötætur = allan þorra þjóðarinnar. Held mögulega að það sé vænlegri leið að sýna því samkennd að það geti verið erfitt að skipta um mataræði. En sýna – að það sé hægt. Og það gerðum við tilraunadýrin svikalaust í þessari þáttaröð. Og ég vona svo sannarlega – og heyrist það í fjölmörgum skilaboðum sem ég hef fengið – að gleði okkar (flestra) tilraunadýranna yfir því að prófa eitthvað nýtt, átta sig á áhrifum mataræðis á kolefnisspor, smakka óvæntar matartegundir, víkka matarsjóndeildarhringinn sinn og finna umami í plöntufæði – hafi smitast yfir á einhverja kjötætuáhorfendur!“
https://www.facebook.com/permalink.php?story_fbid=10223658126062487&id=1271866552