Georg Friðgeir Ísaksson hefur þrisvar orðið gjaldþrota vegna spilafíknar. Hann hefur ekki spilað í sjö ár en er engu að síður eignalaus. Georg ræðir um spilafíkn og afleiðingar hennar í viðtali við vefinn lokum.is, sem er framtak á vegum „Samtaka áhugafólks um spilafíkn“ en þau standa að átakinu „Lokum spilakössum.“
Spilafíkn Georgs, sem er fimmtugur, nær langt aftur til barnsára, eða eins og segir í greininni:
„Ég var níu ára þegar mér var réttur kollur svo ég næði upp í spilakassann í sjoppunni. Tíu ára var ég orðinn háður og var alla daga í spilakössum,“ segir Georg Friðgeir Ísaksson.
Ekki leið á löngu þar til Georg var byrjaður að falsa ávísanir til að geta dvalið löngum stundum í spilasölum.
„Spennan og adrenalínið þegar maður vinnur var ekki aðalatriðið. Ég var lagður í einelti í æsku og í spilakössunum kynntist ég nýjum hópi af fólki sem tók mér vel. Þar var ekkert einelti í gangi. Ég fékk að vera einn af hópnum og það var líka spennandi,“ segir Georg. Foreldrar hans reyndu ýmislegt til að beina honum á aðra braut, en án árangurs.“
Georg hætti að nota áfengi og önnur hugbreytandi efni árið 1996. En hann náði ekki að losa sig undan spilafíkninni fyrr en síðla árs 2009. Segir hann að hún hafi ætíð verið sterkasta fíknin. Hefur hann fallið eftir löng hlé. Hann féll með skelfilegum hætti haustið 2009 eftir tíu ára hlé en hefur ekki spilað síðan 2014.
Í dag er Georg öryrki eftir að hafa verið greindur með ADHD árið 2015 og kæfisvefn árið 2017. Hann vinnur nú að því að koma heilsunni í lag meðfram því að skrifa lokaritgerð í lögfræði við Háskólann á Akureyri. Hann býr hjá móður sinni og hefur verið á biðlista eftir félagslegu húsnæði í sjö ár.
„Það er ágætt að vera kominn á hreint en sorglegt að vera fimmtugur og eiga ekkert nema tölvuna, rúmið og skrifborðsstólinn,“ segir Georg. Spilafíknin sé grimm og eiri engu. Hún rústi ekki bara lífi fíkilsins heldur líka fjölskyldu hans. Georg segir að spilakassa eigi að fjarlægja svo þeir eyðileggi ekki fleiri líf.