Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, er í opnuviðtali hjá Morgunblaðinu í Viðskipta Mogganum í dag. Þar ræðir hann hvernig það kom til að hann varð framkvæmdastjóri stærstu matvöruverslunarkeðju landsins og talar um hver markmið hans sem framkvæmdastjóra eru.
„Bónus er ekki deildaskipt. Ég sé um innkaupin og reikningana og ég sem um verðið, stelpurnar sjá svo um það sem skiptir máli. Ég byrja alltaf daginn á því að fara yfir reikninga frá birgjum sem bíða mín í tölvunni. Svo fer ég yfir nóturnar og athuga hvort verðið sé ekki rétt. Ég nota tölvupósta eins mikið og ég get – finnst það frábært tól og sparar mikinn tíma og heldur utan um samskiptasöguna. Maður semur um eitthvað og það er þá til á pósti. Ég er hins vegar lítið í símanum. Finnst leiðinlegt að tala í síma,“ segir Guðmundur.
Guðmundur byrjaði hjá Bónus í áfyllingum árið 1992 og ári seinna var hann orðinn verslunarstjóri í Bónus Faxafeni. Hann stóð sig vel þar og á árunum 1995-1997 starfaði hann sem aðstoðarmaður Jóns Ásgeirs en tók síðan við sem framkvæmdastjóri Bónuss árið 1998. Þá hafði hann á 6 árum unnið sig upp hjá fyrirtækinu frá áfyllingastarfsmanni yfir í framkvæmdastjóra.
„Það hafa margir komið að félaginu í gegnum tíðina. Bæði í stjórn og svo hefur eignarhaldið tekið breytingum. Allir hafa haft skoðun á því sem maður er að gera og hef ég þurft að eyða orku í að verja hugmyndafræðina að baki Bónuss. Verja það sem mér var trúað fyrir í upphafi,“ segir Guðmundur og kemur með skemmtilega sögu.
„Á einum stefnumótunarfundinum var stór aðili sem átti í Högum og fór mikinn; vildi hækka verð [í Bónus-búðunum] úti á landi og vildi ekki að höfuðborgarbúar væru að niðurgreiða vöruverð út á land. Ég sagði að það kæmi ekki til greina á minni vakt enda mín skoðun sú að þessu væri í raun öfugt farið. Því flestar innlendar vörur, eins og til dæmis allar landbúnaðarvörur sem við seljum, væru framleiddar úti á landi og ættu því í raun að vera ódýrari þar, en þá sagði hann: „Þá læt ég bara skipta þér út,“ Þá upphófst mikið rifrildi og hlé var gert á fundinum.“ en að Jóhannes Jónsson, stofnandi Bónus, sagði við hann í fundarhléinu: „Ekki hafa áhyggjur. Hann fer út á undan þér. Þú heldur bara þínu striki.“
Í febrúar 2020 sagði Guðmundur upp störfum sem framkvæmdastjóra vegna ósættis um stefnu sem Hagar voru að taka.
„Ég var til dæmis ósáttur við kaupin á Olís en með þeim misstum við þrjár Bónus-búðir, á Hallveigarstíg, á Smiðjuvegi og í Faxafeni. Áður en Hagar keyptu Olís og Reykjavíkur Apótek ræddu fjármálasérfræðingar um að Hagar skulduðu ekki nógu mikið og allt í einu heyrði maður hugtök sem maður skildi ekki alveg; ég hélt að best væri að skulda sem minnst. Ég tel að best sé að vaxa á eigin verðleikum. Vöxturinn á að koma innan frá,“ segir Guðmundur en stefnan hjá feðgunum Jóhannesi og Jón Ásgeiri sem stofnuðu Bónus var að ef Hagar eignuðust eitthvað skyldi það koma neytendum til góða.
„Hagar fengu undanþágu frá Samkeppniseftirlitinu til að kaupa apótek og olíufélag. Við þurfum að leggja okkur fram um að sýna að slíkt eignarhald Haga komi neytendum að lokum til góða. Annars tel ég að Hagar ættu almennt ekki að kaupa fyrirtæki ef Samkeppniseftirlitið þarf að gera undanþágur og/eða setja skilyrði fyrir því og ávinningur neytenda er ekki augljós,“ segir hann en hann er hættur við að hætta eftir að byrjað var að vinna í að laga þessa stefnu hjá Högum sem Guðmundur var ósammála.