Þetta eru tíu auðugustu fyrirsætur í heimi
Ofurfyrirsætur eru aftur orðnar að ofurstjörnum líkt og þegar Naomi Campbell, Cindy Crawford, Christy Turlington og Linda Evangelista voru upp á sitt besta. Hér eru nöfn fyrirsætanna sem tískurisarnir slást um.
Hilary Rhoda er bandarísk fyrirsæta, fædd 1987. Hún hefur verið andlit Estee Lauder og unnið fyrir merki á borð við Hugo Boss, Ralph Lauren og Nike. Slúðurblöðin elska Hilary sem elskar glamúr og athygli. Hún er gift íþróttamanninum Sean Avery en athygli vakti að hvorki móðir hennar né bróðir voru viðstödd giftinguna.
Hin kínverska Liu Wen er uppáhalds Victoria’s Secret-engill margra. Wen er 25 ára og hefur starfað fyrir tískurisa á borð við Hugo Boss, Calvin Klein og Estee Lauder. Wen er vinsælasta asíska fyrirsætan í dag.
Gisele er ekki aðeins drottning tískupallanna heldur einnig stórt nafn í Hollywood. Hún hefur verið bendluð við nokkra af frægustu mönnum í heimi og er í dag gift NFL-stjörnunni Tom Brady og eiga hjónin tvö börn.
Þrátt fyrir að hafa verið í bransanum í mjög langan tíma er partípinninn Kate Moss enn gríðarvinsæl. Moss var uppgötvuð 14 ára en hún er fædd 1974 og verður 42 ára í næstu viku. Kate hefur auðgast vel af samningum sínum við tískurisa á borð við Liu-Jo, Versace, Rimmel og Vogue Eyewear.
Candice Swanepoel er frá Suður-Afríku, fædd 1988 en hóf að starfa sem fyrirsæta 15 ára. Hún er einn vinsælasti Victoria’s Secret-engillinn og hefur einnig unnið með IMG, Max Factor, Versace og Juicy Couture. Candice sat í tíunda sæti á lista Forbes yfir þær fyrirsætur sem þénuðu mest árið 2012.
Hin hollenska Lara Stone er 32 ára og eiginkona heimsfræga grínistans Davids Walliams úr Little Britain. Lara hefur unnið fyrir öll frægustu merkin og var í áttunda sæti lista Forbes yfir tekjuhæstu fyrirsætur ársins 2012.
Brasilísku ofurfyrirsætunni Alessöndru Ambrosio hefur tekist að skapa sér nafn sem leikkona í Hollywood. Alessandra er 34 ára, tveggja barna móðir og gift viðskiptajöfrinum Jamie Mazur. Abrosio hefur unnið fyrir merki á borð við Christian Dior, Ralph Lauren og Armani Exchange.
Ísraelska fyrirsætan Bar Refaeli hefur einnig reynt fyrir sér sem leik- og sjónvarpskona. Bar er gífurlega vinsæl, hefur unnið með öllum helstu merkjunum og á nú von á sínu fyrsta barni með eiginmanni sínum, viðskiptajöfrinum Adi Ezra, sem hún giftist síðasta haust.
Adriana Lima er brasilísk fyrirsæta og leikkona. Hún var talskona snyrtivörufyrirtækisins Maybelline frá 2003 til 2009 og er líklega þekktust sem ein af englum Victoria’s Secret en hún hefur unnið lengst allra fyrirsæta með undirfatafyrirtækinu. Margir muna líka eftir henni úr Super Bowl- og Kia Motors-auglýsingunum.
Á toppi listans yfir ríkustu fyrirsætur í heimi situr Miranda Kerr, 32 ára áströlsk fyrirsæta sem var aðeins þrettán ára þegar hún byrjaði að vinna í bransanum. Kerr var um tíma gift Hollywood-leikaranum Orlando Bloom og á með honum eitt barn. Miranda hefur verið ein af allra vinsælustu fyrirsætum heims frá árinu 2007. Hún rekur eigið snyrtivörufyrirtæki, KORA Organics, og hefur skrifað sjálfshjálparbók.