Merseyside lögreglan hefur staðfest að hún rannsaki líflátshótanir í garð knattspyrnudómarans Mike Dean. Sagt var frá því fyrr í dag að Mike Dean og fjölskyldu hans hefðu borist líflátshótanir eftir leik Fulham og West Ham um helgina.
Mike Dean tilkynnti málið sjálfur til lögreglunnar og hefur einnig beðið um leyfi frá dómarastörfum í vikunni á meðan málið er í rannsókn.
Atvikið snýr að ákvörðun Mike Dean um að gefa Tomasi Soucek, leikmanni West Ham rauða spjaldið fyrir litlar sakir í leik Fulham og West Ham. Ákvörðun Mike Dean var áfrýjað og Soucek þarf ekki að fara í bann.
Gary Lineker, fyrrverandi knattspyrnumaður og núverandi þáttastjórnandi Match of the day á BBC tjáði sig um málið á Twitter í dag.
„Það er klárlega rétt ákvörðun að leikbanni Tomas Soucek hafi verið aflétt en hvað Mike Dean varðar þá er það að fá líflátshótanir hreint út sagt hræðilegt. Hvað er að fólki?“ skrifaði Gary Lineker á Twitter.