fbpx
Miðvikudagur 24.júlí 2024
Fréttir

Marta lenti í hakkavél kommentakerfisins – „Engum finnst þægilegt að láta kalla sig öllum illum nöfnum“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 8. febrúar 2021 14:00

Mynd: Facebook

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Grein sem Marta Eiríksdóttir, íslenskukennari og rithöfundur, birti á Vísir.is í síðustu viku, vakti miklar umræður og deilur. Kjarni hennar var sú skoðun Mörtu að útlendingar sem búa og starfa á Íslandi eigi að læra íslensku. Það væri sjálfsögð krafa og forsenda velferðar þeirra sjálfra. Sjálf sagðist hún hafa lært staðartungumálið þar sem hún hefur dvalist erlendis til lengri tíma og nefndi þar til sögunnar Danmörku og Noreg. Yfirskrift greinarinnar var „Ég tala dönsku í Danmörku“.

Bæði grein Mörtu og frétt DV um hana vöktu miklar umræður, sérstaklega undir Facebook-deilingum greinanna. Gagnrýnendur Mörtu bentu á að það væri ekki sambærileg áskorun fyrir Íslending að læra dönsku og til dæmis Asíu- eða Afríkubúa að læra íslensku.

Miðað við aðra grein um málið sem Marta birtir á Vísir.is í dag er ljóst að umræðan fór úr böndunum. Marta segir mikilvægt að fólk sem hefur gott til málanna að leggja þori að tjá sig en láti ekki dónaskap nettrölla fæla sig frá því:

„Það er annars mjög áhugavert að skoða skrif þeirra sem ráðast á aðra í „kommenta“ kerfinu og merkilegt hvað þeir taka þar mikið pláss, eru bálreiðir út í allt og alla. Fólkið dæmir sig sjálft með neikvæðum skrifum sínum og ómálefnalegri umræðu. Það er ekki þess virði að elta ólar við svoleiðis fólk. Verum góð hvert við annað.

Við verðum öll að þora að fara inn í gin úlfsins; Að láta skoðun okkar í ljós á opinberum vettvangi. Íslenskt samfélag þarf á jákvæðu fólki að halda. Það er ekki gott ef þeir sem vilja vel, þora ekki að tala af ótta við að vera kallaðir fasistar, rasistar, nasistar, forréttindapíkur eða bara hálfvitar. Þá velja nú flestir að sleppa því að tjá sig opinberlega og lifa frekar áfram í friði í sínum innsta hring. En við þurfum að fá að heyra í fleiru jákvæðu fólki, fá bylgju jákvæðni inn í samfélagið okkar. Ekki veitir af.“

„Engum finnst þægilegt að láta kalla sig öllum illum nöfnum á opinberum vettvangi,“ segir Marta enn fremur og segist taka ofan hattinn fyrir þeim sem fara út í þingmennsku. Hins vegar sé nauðsynlegt að leyfa ekki neikvæðum öflum að stýra umræðunni. Hún segir þjóðina vera á tímamótum og mikilvægt sé að spila rétt úr stöðunni. Fólk flytjist milli landa í miklum mæli, sem krefjist sveigjanleika og aðlögunarhæfni. Hún segir: „Ég veit hvernig það er að búa í erlendu landi og vera atvinnulaus. Það er ekki létt. Íslendingar eru að fá nýja innspýtingu fólks af erlendu bergi sem auðgar mannlífið ef rétt er á málum haldið.“

Ábyrgð fyrirtækja

Marta bendir á að margir útlendingar sem áður störfuðu í ferðaþjónustu, þar sem flestir komast langt á því að nota ensku í daglegum samskiptum, séu núna atvinnulausir og þörfin fyrir íslenskukunnáttu sé orðin meiri, ef það ætlar sér að ná fótfestu annars staðar í atvinnulífinu. Núna séu erlendir starfsmenn að vinna fyrir innfædda og með innfæddum. Hún segir síðan:

„Við getum alveg tekið vel á móti þessum nýju íbúum og boðið þeim fría íslenskukennslu. Hvatt þá til að læra málið okkar. Fyrirtæki eiga að sjá sóma sinn í því að styðja erlent starfsfólk til íslenskunáms. Það leynist auður í allskonar fólki. Íslensk tungumálakunnátta myndi greiða leið margra sem flytja hingað. Það er kjarni málsins; Að hjálpa fólki að aðlagast íslensku samfélagi. Tungumálið er lykillinn að tækifærum í hverju landi. Þýðir ekki að berja hausnum við stein og halda að maður komist áfram á ensku til lengdar á Íslandi eða í öðru norrænu landi. Staðreynd af fenginni reynslu en ekki fordómar!“

Úlfarnir bíða í leynum

Marta víkur síðan aftur að neikvæðri umræðu í netinu og hvetur jákvætt fólk til að stíga fram og leggja sitt til málanna en láta nettröllin ekki hræða sig frá opinberum skrifum:

„Gott fólk komið úr felum! Birtið fleiri uppbyggjandi greinar frá ykkur á vefmiðlum landsins. Greinar frá allskonar fólki sem hefur eitthvað fallegt fram að færa inn í samfélag okkar. Góðar hugmyndir sem stuðla að friði á milli ólíkra samfélagshópa sem búa á Íslandi í dag. Búum til gott Ísland – Gerum þetta saman!“

Eiríkur segir eðlilegt að útlendingar læri íslensku

Eiríkur Rögnvaldsson íslenskufræðingur skrifa áhugaverðan pistil um ágreininginn um hvort útlendingum sem búa á Íslandi beri að læra íslensku eða ekki. Hann segir ekki sanngjarnt að vísa til þess að í tilteknum löndum fái fólk ekki vinnu nema að tala tungumál landsins og ætlast til þess að sama gildi hér. Íslenska sé reyndar ekki erfiðara tungumál en gengur og gerist en hér skipti líkindi og skyldleiki við móðurmál töluvert miklu.

Eiríkur segir hins vegar að almennt eigi aldrei að vera sjálfgefið að nota annað tungumál en íslensku á Íslandi og eðlilegt sé að fólk sem hingað flytjist til að búa um ófyrirsjáanlega framtíð læri íslensku. Hins vegar sé ósanngjarnt að krefjast þess að fólk tali lýtalausa íslensku:

„Það á aldrei að vera sjálfgefið að nota annað tungumál en íslensku á Íslandi – og íslenskt táknmál, ef því er að skipta. Ef okkur finnst sjálfsagt að geta ekki notað íslensku við einhverjar aðstæður er hætt við að við verðum andvaralaus gagnvart því að umdæmi málsins minnki smátt og smátt þangað til ekki verður aftur snúið. Þess vegna eigum við að ætlast til og gera ráð fyrir að hægt sé að nota íslenskuna alls staðar, en jafnframt verðum við að vera raunsæ og átta okkur á því að vegna smæðar málsamfélagsins og ýmissa ytri aðstæðna verður stundum að gefa afslátt af þeirri kröfu. En meginatriðið er að vinna að því með öllu móti að gera íslenskuna gjaldgenga á öllum sviðum.

Það er ekkert óeðlilegt að vænta þess að fólk sem flyst hingað til að búa hér um ófyrirsjáanlega framtíð læri íslensku – og ég held að það vilji það flest. Það er ekki síst mikilvægt fyrir fólkið sjálft til að það geti tekið fullan þátt í þjóðfélaginu, eigi auðveldara með að fá vinnu og verði hluti af samfélaginu. En við megum ekki gera óraunhæfar kröfur til fólksins um fullkomna íslensku, og t.d. ekki dæma fólk sem hefur búið hér um árabil þótt það tali ekki íslensku þegar það kemur fram í fjölmiðlum. Litháísk kona sem býr hér og talar alveg ágæta íslensku (ég hef talað við hana) hefur lýst því að nokkrum sinnum hafi verið tekin viðtöl við hana en ekki birt af því að hún þótti ekki tala nógu góða íslensku.“

Eiríkur segir málið viðkvæmt og það hafi margar hliðar:

„Þetta er mjög viðkvæmt mál sem hefur margar hliðar. Við þurfum að gæta tungumálsins – staða málsins veikist ef aðstæður þar sem íslenska er ekki nothæf verða fjölbreyttari, og ef þeim fjölgar sem finnst eðlilegt að geta ekki notað íslensku við ýmsar aðstæður. Við þurfum að gæta réttinda málhafanna – það eru til margir Íslendingar af eldri kynslóðinni sem treysta sér ekki til að hafa samskipti við aðra á ensku og það þarf að taka tillit til þeirra. Við þurfum að gæta réttinda starfsfólks sem ekki talar íslensku – það hefur verið ráðið í vinnu án þess að gerð hafi verið krafa um íslenskukunnáttu og pirringur viðskiptavina yfir að geta ekki notað íslensku má ekki bitna á því.“

Pistil Eiríks má lesa í heild með því að smella á tengilinn hér að neðan.

https://www.facebook.com/eirikurr/posts/10158199501003871

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Flugstjórinn sá eini sem komst lífs af

Flugstjórinn sá eini sem komst lífs af
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Baráttumaðurinn Unnar Karl Halldórsson fallinn frá

Baráttumaðurinn Unnar Karl Halldórsson fallinn frá
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fjölskyldufaðir ósáttur við að vera kallaður flugdólgur

Fjölskyldufaðir ósáttur við að vera kallaður flugdólgur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gleðifréttir fyrir líffæraþega – Sjúkratryggingar Íslands munu greiða allan kostnað við bólusetningar

Gleðifréttir fyrir líffæraþega – Sjúkratryggingar Íslands munu greiða allan kostnað við bólusetningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stefán Einar hraunar yfir kennaraforystuna – „Er metnaðarleysið algjört á þessum stöðum?“

Stefán Einar hraunar yfir kennaraforystuna – „Er metnaðarleysið algjört á þessum stöðum?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kvennaathvarfið nýtir gervigreind í nýrri vitundarvakningarherferð

Kvennaathvarfið nýtir gervigreind í nýrri vitundarvakningarherferð