Knattspyrnudómaranum Mike Dean, hafa borist líflátshótanir í kjölfar leiks Fulham og West Ham United á laugardaginn síðastliðinn. Mike Dean var dómari leiksins.
Hann gaf Tomas Soucek, leikmanni West Ham, rautt spjald undir lok leiks fyrir meint olnbogaskot, atvik sem hefði í raun aldrei átt að verðskulda rautt spjald. Leikurinn endaði með 0-0 jafntefli.
Mike Dean hefur sjálfur beðið um að dæma ekki leik í vikunni eftir að hafa borist líflátshótanir þá hefur hann einnig tilkynnt málið til lögreglu.
Mikil reiði spratt upp eftir leikinn þar sem David Moyes, knattspyrnustjóri West Ham sagði meðal annars að Mike Dean ætti að skammast sín fyrir þessa ákvörðun sína.
Mike Riley, yfirmaður dómaramála hjá enska knattspyrnusambandinu segir slíkar hótanir ólíðandi.
„Hótanir af þessu tagi eru með öllu óásættanlegar og við stöndum þétt við bakið á Mike Dean og ákvörðun hans um að fara með málið til lögreglu,“ sagði Mike Riley.
West Ham áfrýjaði þessari ákvörðun Mike Dean og var henni snúið við hjá enska knattspyrnusambandinu, Soucek mun því ekki þurfa að fara í leikbann.