Í henni er reiknað út hvernig ný og meira smitandi afbrigði veirunnar, til dæmis þau sem eru kennd við England og Suður-Afríku, geti breiðst út og aukið fjölda smita. Í versta falli, samkvæmt verstu sviðsmyndinni, þá getur þriðja bylgja faraldursins skollið á og orðið verri en þær tvær fyrri.
„Þriðja bylgjan veltur á auknum samskiptum fólks eða blöndu af auknum samskiptum og útbreiðslu stökkbreytts og meira smitandi afbrigði veirunnar,“ segir meðal annars í skýrslunni.
Samkvæmt svörtustu spánni þá mun þriðja bylgjan skella á í mars, óháð því hvort nýja afbrigðið er 30 eða 50% meira smitandi en „gamla afbrigðið“. Ef það er 50% meira smitandi afbrigði sem breiðist út þá vonast yfirvöld til að hægt verði að halda samskiptum fólks í lágmarki en ef það tekst ekki mun bylgjan verða mjög stór í mars og apríl, með fleiri smitum en áður hafa sést.
Hinar tvær spárnar eru aðeins skárri. Ef samskipti fólks á aldrinum 20 til 69 ára aukast hægt og rólega og ná því stigi sem var í haust mun fjöldi daglegra smita dragast saman og verða um 2.000 á dag, jafnvel þótt 30% meira smitandi afbrigði nái undirtökum í samfélaginu.
Besta spáin miðast við að það takist að halda samfélagslegri virkni í algjöru lágmarki og fólk haldi sig fjarri öðru fólki. Ef það tekst mun faraldurinn því sem næst lognast út af í vor og það jafnvel þótt 50% meira smitandi afbrigði nái undirtökum.
Um 600.000 Svíar hafa greinst með veiruna og rúmlega 12.000 hafa látist af völdum COVID-19.