Harry Redknapp, fyrrverandi knattspyrnustjóri liða á borð við Tottenham og Portsmouth, telur að úrslitin í leik Liverpool og Manchester City muni hafa lítið að segja í titilbaráttu deildarinnar.
„Fyrir mánuði síðan hélt ég að titilbaráttan í ensku úrvalsdeildinni myndi ráðast í síðustu umferðinni. Nú segi ég að við verðum heppin ef úrslitin verða ekki ráðin fyrir páska. Í mínum augum eru úrslitin nú þegar ráðin varðandi það hvaða lið verður Englandsmeistari,“ skrifaði Harry Redknapp í pistli sem birtist hjá The Sun.
Redknapp telur fullvíst að Manchester City verði enskur meistari. Hann segir engu máli skipta hvernig leikur liðsins gegn Liverpool fari í dag.
„Titilbaráttunni er lokið, trúið mér,“ skrifar Harry Redknapp.
Manchester City er í 1. sæti deildarinnar með 47 stig eftir 21 leik, fyrir leik dagsins. Manchester City hefur verið á miklu skriði í ensku úrvalsdeildinni og virðist ósigrandi um þessar mundir. Síðasta tap liðsins kom gegn Tottenham þann 21. nóvember 2020.
Liverpool er í 4. sæti með 40 stig eftir 22 leiki og tapaði fyrir Brighton á heimavelli í síðustu umferð. Það verður fróðlegt að sjá hvort Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool eigi ása upp í erminni til að koma Pep Guardiola og lærisveinum hans á óvart.