Alex Tuanzebe, varnarmaður Manchester United, hefur enn á fengið send rasísk skilaboð á samfélagsmiðlum eftir leik með enska félaginu.
Tuanzebe kom inn á sem varamaður í 3-3 jafntefli United gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni í gær og braut á leikmanni Everton í aðdraganda jöfnunarmarks liðsins.
Leikmaðurinn fékk fjöldann allan af skilaboðum eftir leikinn, rasísk skilaboð þar sem notuð voru tákn (e. emojis) á borð við apa.
Tuanzebe hafði áður orðið fyrir barðinu á netníðingum eftir tap Manchester United gegn Sheffield United á dögunum.
Fleiri leikmenn hafa á undanförnum dögum stigið fram og opinberað að þeir hafi einnig fengið send rasísk skilaboð á samfélagsmiðlum. Ensk félög hafa fordæmt þessi skilaboð og hvetja umsjónarmenn samfélagsmiðla að gera eitthvað í málunum.
Þá hefur breska ríkið einnig stigið inn í málið og hótað samfélagsmiðlafyrirtækjum stórum sektum mistakist þeim að takast á við vandamálið.