Leifur S. Garðarsson er kominn í ótímabundið veikindaleyfi sem skólastjóri Áslandsskóla. Frá þessu greinir Vísir en þetta kemur upp eftir að greint var frá starfslokum hans sem dómara hjá Körfuknattleikssambandi Íslands eftir óviðeigandi skilaboð sem hann sendi á leikmann.
DV var fyrst til að fjalla um málið en þá var ekki greint frá því um hvaða dómara væri verið að ræða. „Þekktur körfuboltadómari hefur verið settur út í kuldann og dæmir ekki frekar í leikjum á vegum Körfuknattleikssambands Íslands vegna rafrænna samskipta við leikmann í úrvalsdeild kvenna, samkvæmt staðfestum heimildum DV. Atvikið gerðist í febrúar árið 2020,“ segir í fréttinni sem DV birti um málið þann 28. janúar síðastliðinn. Stuttu seinna fóru fjölmiðlar að greina frá því hvaða dómari þetta væri.
Vísir hefur heimildir fyrir því að þessi óviðeigandi skilaboð sem Leifur sendi á leikmanninn sé langt frá því að vera einsdæmi. Samkvæmt heimildum Vísis funduðu nokkrar konur með Hafnarfjarðarbæ fyrir fimm árum síðan vegna kynferðislegra samskipta sem ein þeirra segist hafa fengið send frá Leifi. Vísir ræddi þá einnig við tvær íþróttakonur sem sögðust hafa fengið kynferðisleg skilaboð upp úr þurru frá skólastjóranum fyrir tæpum áratug síðan. Önnur íþróttakona sagðist svo hafa fengið mörg óumbeðin skilaboð frá honum en hún svaraði aldrei neinu þerra.
Allar þessar konur sögðu í samtali við Vísi að þær þekki fleiri konur sem skólastjórinn sendi skilaboð á. Konurnar segja þá að þetta hafi bæði gerst nýlega og yfir síðastliðin ár.