Liverpool tekur á móti Manchester City í 23. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag. Leikið verður á Anfield og hefst leikurinn klukkan 16:30.
Danny Murphy, fyrrverandi leikmaður Liverpool segir að sitt gamla félag, verði að vinna leikinn.
„Þótt mótið sé aðeins rúmlega hálfnað er leikurinn á móti Manchester City leikur sem Liverpool verður að vinna, ætli þeir sér að verja titilinn,“ skrifaði Danny Murphy í pistli sem birtist á heimasíðu BBC.
Liverpool er fyrir leikinn í 4. sæti deildarinnar með 40 stig, sjö stigum á eftir Manchester City sem er á toppi deildarinnar og á leik til góða á Liverpool. Murphy segir að þetta sé ekki aðeins tækifæri fyrir Liverpool til þess að minnka bilið á City.
„Sigur myndi gefa öðrum liðum í deildinni sjálfstraust og auka trúa þeirra á að geta náð sigri gegn Manchester City,“ skrifaði Danny Murphy.
Manchester City hefur verið á miklu skriði í ensku úrvalsdeildinni og virðist ósigrandi um þessar mundir. Síðasta tap liðsins kom gegn Tottenham þann 21. nóvember 2020.
Ljóst er að það bíður Liverpool erfitt verkefni á heimavelli en liðið tapaði gegn Brighton í síðustu umferð og mun þurfa á mun betri frammistöðu að halda ætli liðið sér að bera sigur úr býtum gegn Manchester City.