Daníel Hafsteinsson hefur gert þriggja ára samning við Pepsi Max deildar lið KA. Hann gengur til liðs við KA frá sænska liðinu Helsingborg.
Daníel er öllum hnútum kunnugur hjá KA en hann spilaði 45 leiki fyrir liðið og skoraði 5 mörk áður en hann gekk til liðs við Helsingborg árið 2019.
Daníel var sendur á láni til FH á síðasta tímabili þar sem hann spilaði 13 leiki og skoraði 4 mörk.
„Danna þarf ekki að kynna fyrir KA-fólki enda uppalinn á KA-vellinum og verður virkilega gaman að fá hann aftur heim og sjá hann klæðast gulu treyjunni á nýjan leik,“ segir í tilkynningu frá KA.
KA endaði í 7. sæti Pepsi Max deildarinnar á síðasta tímabili með 21 stig eftir 18 leiki. Arnar Grétarsson tók við liðinu á miðju tímabili.
Væntingar KA manna eru án efa að gera betur á næsta tímabili. KA hefur verið að styrkja sig á undanförnum dögum en bakvörðurinn Jonathan Hendrickx, skrifaði á dögunum undir samning hjá liðinu.