Real Madrid þurfti að hafa fyrir hlutunum í 2-1 sigri gegn Huesca í spænsku úrvalsdeildinni í dag.
Real lenti undir í leiknum á 48. mínútu en náði þó að snúa leiknum sér í vil með tvemur mörkum frá Raphael Varane á 55. og 84. mínútu.
Real er eftir sigurinn í 2. sæti deildarinnar með 43 stig, sjö stigum minna en topplið Atletico Madrid sem á tvo leiki til góða á Madridinga.
Sigur Real Madrid kemur í skugga mikils áfalls fyrir liðið en fyrirliði liðsins, Sergio Ramos, verður að öllum líkindum frá í að minnsta kosti 6-10 vikur.
Ramos hefur verið frá að undanförnu vegna meiðsla í hné en nú hefur það verið staðfest að leikmaðurinn þurfti að gangast undir aðgerð á hné vegna meiðslanna. Það veldur því að hann verður lengur frá en áætlað var.
Ramos er einn af lykilleikmönnum Real sem fyrirliði og leiðtogi í varnarleik liðsins.