Tveimur leikjum lauk núna seinnipartinn í 23. umferð ensku úrvalsdeildarinnar Burnley og Brighton gerðu 1-1 jafntefli og Newcastle hafði betur gegn Southampton í markaleik.
Á Turf Moor tók Burnley á móti Brighton. Lewis Dunk, fyrirliði Brighton kom liðinu yfir með marki á 36. mínútu eftir stoðsendingu frá Pascal Gross. Þannig stóðu leikar þar til á 53. mínútu þegar að Jóhann Berg Guðmundsson, jafnaði leikinn fyrir Burnley með sínu fyrsta marki á tímabilinu.
Fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum og sættust liðin því á jafnan hlut. Burnley er eftir leikinn í 17. sæti deildarinnar með 23 stig. Brighton er í 15. sæti með 25 stig.
Á St. James’ Park tóku heimamenn í Newcastle á móti Southampton í markaleik. Joseph Willock kom Newcastle yfir með marki á 16. mínútu, þetta var fyrsti leikur Willock fyrir Newcastle en hann er á láni hjá félaginu frá Arsenal.
Á 26. mínútu tvöfaldaði Miguel Almirón, forystu Newcastle með marki eftir stoðsendingu frá Allan Saint Maximin. Takumi Minamino, lánsmaður hjá Southampton frá Liverpool, minnkaði muninn fyrir gestina með marki á 30. mínútu og staðan því orðin 2-1 fyrir Newcastle.
Almiron skoraði sitt annað mark í leiknum er hann kom Newcastle í stöðuna 3-1 með marki í uppbótartíma fyrri hálfleiks.
James Ward-Prowse minnkaði muninn fyrir Southampton með marki á 48. mínútu og tveimur mínútum síðar fékk Jeff Hendrick, leikmaður Newcastle að líta sitt annað gula spjald í leiknum og Newcastle þurfti því að spila einum manni færri út leikinn.
Það kom þó ekki að sök, tíu leikmenn Newcastle náðu að halda í forystuna og leikurinn endaði með 3-2 sigri heimamanna. Sigurinn kemur Newcastle upp í 16. sæti deildarinnar þar sem liðið er með 25 stig. Southampton er í 12. sæti með 29 stig.
Burnley 1 – 1 Brighton
0-1 Lewis Dunk (’36)
1-1 Jóhann Berg Guðmundsson (’53)
Newcastle 3 – 2 Southampton
1-0 Joe Willock (’16)
2-0 Miguel Almirón (’26)
2-1 Takumi Minamino (’30)
3-1 Miguel Almirón (’45+4)
3-2 James Ward-Prowse (’48)
Rautt spjald: Jeff Hendrick, Newcastle United (’50)