Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, vill fá góða frammistöðu og sigur frá leikmönnum sínum í leik liðsins gegn Everton í kvöld til að heiðra minningu fórnarlamba flugslysins í Munchen árið 1958.
Sextíu og þrjú ár eru í dag liðin frá þessu hörmulega slysi sem tók líf 23 einstaklinga, þar á meðal átta leikmanna Manchester United.
„Þetta er stór dagur fyrir alla stuðningsmenn Manchester United og hann er alltaf tilfinningaþrunginn. Þetta er aðeins í fjórða skipti sem þessi dagur ber upp á leikdegi og því er það mikilvægt að við sýnum góða frammistöðu og vonandi getum við heiðrað minningu þeirra sem létust, með sigri,“ sagði Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United.
Slysið átti sér stað eftir millilendingu vélarinnar í Munchen á leið sinni frá Belgrad, þar sem Manchester United lék Evrópuleik, til Manchesterborgar.
Mínútuþögn verður fyrir leik kvöldsins og leikmenn bera sorgarbönd til minningar um þá sem létust.