fbpx
Laugardagur 08.febrúar 2025
Fréttir

Vöðvabólgan reyndist vera heilablæðing – Kidda endaði á gjörgæslu

Bjarki Sigurðsson
Föstudaginn 5. febrúar 2021 22:30

Mynd: Hún.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Oft dettur mér í hug, þegar ég er í góðra vina hópi eða með fjölskyldunni, hvað við erum heppin. Heppin að vera hraust og vera við nokkuð góða heilsu. Það er ómetanlegt! Algjörlega ómetanlegt og ætti ekki að vera tekið sem gefnu, að vakna á morgnana og geta sinnt vinnu, áhugamálum og sínum nánustu.“

Svona hefst pistill Kiddu Svarfdal, ritstjóra Hún.is. Þar lýsir hún einni af af ógnvægilegustu stundum lífs síns. Hún fór í Costco með dóttur sinni og þegar hún var komin inn í bíl fann hún fyrir verk í hálsi sem leiddi alveg inn í augu.

„Ég hélt í nokkrar sekúndur að ég þyrfti að finna leið til að keyra út í kant og hringja í sjúkrabíl. Þetta „kast“ rjátlaðist af mér en eftir sat nístandi höfuðverkur. Ég var eiginlega alveg stjörf af skelfingu. Þegar ég kem heim segi ég við Magnús minn að það hafi eitthvað rosalegt verið að gerast í hausnum á mér. Hann róar mig niður og við borðum kvöldmat öll saman og ég er alltaf með þennan nístandi hausverk,“  skrifar Kidda og hún hugsaði með sér að þetta væri eins og hún kallar það „bráða-mígreni“ en hún er vön að fá mígreni. Hún gerði því það sem hún gerir venjulega þegar hún fær mígreni, tók inn töflu og fór í bað.

„Daginn eftir var ég ekkert betri. Ég svaf illa um nóttina en ég hafði tekið Íbúfen og Paratabs um kvöldið en það hafði heldur ekkert að segja. Verkurinn var frá öxlum og fram í augu. Eiginlega sárastur í kringum og bakvið augun. Ég fann til ef ég hreyfði augun. Ég átti erfitt með birtu og var lystarlaus og hálfbumbult,“ segir Kidda er hún lýsir sársaukanum.

Hún hringdi á heilsugæsluna og bað um að tala við hjúkrunarfræðing sem sagði henni að mæta til sín. Læknarnir sögðu þetta vera vöðvabólgu sem kom henni ekki á óvart þar sem hún vinnur mikið við tölvu og er mikil tölvunotkun oft tengd við vöðvabólgu. Hún fékk ný lyf en ekkert lagaðist.

„Daginn eftir, fimmtudaginn 14. janúar, vaknaði ég eftir svefnlitla nótt og var enn eins. Höfuðverkurinn hafði bara versnað ef eitthvað var. Ég hitti annan lækni, sem tók undir orð kollega síns frá því daginn áður og sagði að ég væri með vöðvabólgu. Hún bætti aðeins í lyfin og lét mig hafa Parkódín Forte. Með það fór ég heim og hélt kannski að nú færi sársaukinn kannski að dvína. Það gerðist þó ekki.“

Kidda fór á bráðamóttökuna næsta dag. Hún þurfti að bíða í nokkurn tíma enda ekki mikill forgangur í að vera með höfuðverk.

„Að lokum komst ég inn og fékk að tala við lækni. Hún var ekki á því að neitt væri hægt að gera og ég brotnaði niður. Sagði henni að ég gæti ekki verið svona og mér liði svo skelfilega. Á endanum fékk hún lærlinginn sinn til að sprauta einhverju vöðvaslakandi í öxlina á mér og ég var send heim.“

Þarna fór hana að gruna að ekki væri allt með felldu því verkjalyfin virka ekki. Hún nær þó að sofna seint um nóttina.

„Næsta sem ég man er að ég vakna á gólfinu fyrir neðan stigann heima hjá mér. Sársaukinn í höfðinu var óbærilegur. Ég staulast einhvernveginn á fætur og nudda á mér andlitið. Hendurnar á mér urðu blautar og einhvern veginn klístraðar og þegar ég lít á hendurnar eru þær allar í blóði. Gólfið þar sem ég lá líka. Ég er gjörsamlega máttvana og staulast inn á bað og næ mér í handklæði sem ég set á höfuðið á mér. Ég man eftir að sjá mig hálfafskræmda í framan af blóði og bólgu á enninu,“ skrifar Kidda.

Hún fer að tala við manninn sinn en hann skilur ekkert hvað hún segir og segir hana hafa verið alveg ruglaða og ekki getað tjáð sig vel.

„Aftur förum við niður á spítala enda var ég með gat á höfðinu og þurfti að fá sauma. Ég man lítið eftir þessu öllu. Ég man ekkert eftir akstrinum niður á spítala, man ekkert eftir að skrá mig inn eða neitt. Þetta gerðist um 6 um morguninn laugardaginn 16. janúar. Það voru svo tekin 3 spor í ennið á mér og ákveðið að taka sneiðmynd af höfðinu á mér, þar sem ég hafði misst meðvitund og fengið höfuðhögg. Ég man að ég var spurð hvort ég hefði verið að drekka áfengi og hvort þetta hefði verið slys og mér gefið færi á að segja frá heimilisofbeldi ef það hefði átt sér stað.“

Læknirinn sá að eitthvað var skrítið á sneiðmyndunum og vildi taka aðrar myndir. Þær myndir sýndu að hún væri með sprunginn æðagúl í höfðinu.

„Það átti að framkvæma aðgerð á mér þennan sama dag. Eftir 5 klukkustundir. Við tóku lengstu klukkutímar lífs míns. Ég þurfti að bíða, liggjandi út af, tengd við allskonar leiðslur og drasl, fékk þennan fína þvaglegg og góndi út í loftið. Ég hafði ekki einbeitingu í neitt og ég sver að tíminn leið hægar þarna en nokkru sinni. Ég var lítið búin að sofa og fannst ég dotta stundum en þegar ég leit á klukkuna aftur voru bara 5 mínútur liðnar síðan ég leit á klukkuna. Mikið af biðinni er í móðu en ég fékk að lokum hljóðeinangrandi heyrnartól sem gerðu mér lífið mun bærilegra í asanum sem var þarna á spítalanum.“

Kidda man mjög vel eftir því að hafa hitt svæfingarlækninn og verið keyrð inn á skurðstofuna. Þá var henni sagt að hún væri að fá kæruleysislyf og yrði svo svæfð. Þegar hún vaknaði leið henni eins og það hefði liðið ein mínúta frá því að hún var svæfð.

„Aron læknirinn minn situr við rúmið mitt með hönd á rúminu, og það sem ég meðtók var að hann sagði að aðgerðin væri búin og hefði gengið svakalega vel. Ég man bara eftir að augun fylltust af tárum og eina sem ég gat gert var að leggja snúrum tengda hönd mína á hans og segja „takk“. Ég var ennþá á lífi! Það var það eina sem skipti máli á þessum tíma. Það var hinsvegar heilmikið eftir á þessum tímapunkti.“

Kidda var í 5 daga á gjörgæslu eftir aðgerðina. Hún var í móki fyrstu tvo dagana og svaf mest allan tímann.

„Hvað varð um mitt venjulega líf? Mér fannst ég vera að lifa lífi einhvers annars. Þetta var alls ekki planið. Ég var upptekin kona. Fólkið sem starfar á gjörgæslunni er einstakt fólk. Hver einasta manneskja sem ég var í samskiptum við var nærgætin, uppörvandi, huggandi og skilningsrík. Það var það eina sem mig vantaði í þessari stöðu. Það var erfitt fyrir mig að vera föst í rúmi í marga daga enda frekar virk að eðlisfari.“

Hún mátti ekki liggja flöt heldur þurfti að hækka rúmið svo höfuðið væri hæsti punktur svo hún fengi ekki spasma í heilann.

„Eftir gjörgæslu fór ég á almenna deild B6 og snúrunum fór hægt og rólega fækkandi. Þvílíkur draumur. Ég gat farið í sturtu og klósettið án hjálpar. Ég var svakalega þróttlaus og þurfti að fara hægt í sakirnar en mjög fljótt var ég farin að ganga alla gangana fram og til baka og skrá ferðirnar hjá mér,“ segir hún og þakkar starfsfólkinu á deild B6 fyrir að vera frábært og að hjálpa sér. Henni leið vel á spítalanum.

„Ég útskrifaðist 26. janúar og fór heim. Heppin að vera á lífi og óendanlega þakklát fyrir að ekki fór verr. En heimferðin var einn hluti af bataferlinu og ég mun kannski segja ykkur frá því sem eftir kom seinna.“

Þessi pistill minnir okkur öll á að sama á hvaða aldri við erum þá er heilsan ekki sjálfgefin. Við skulum lifa lífinu í núinu því við vitum aldrei hvað gerist næst.

Greinin er birt með góðfúslegu leyfi frá höfundi

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ævintýralega löng flugferð frá Tenerife til Akureyrar: Enduðu í Glasgow eftir átta tíma flug – Mikið klappað þegar vélin loksins lenti

Ævintýralega löng flugferð frá Tenerife til Akureyrar: Enduðu í Glasgow eftir átta tíma flug – Mikið klappað þegar vélin loksins lenti
Fréttir
Í gær

Elín: „Ég er þreytt á að finnast ég þurfa að réttlæta og verja starfið mitt”

Elín: „Ég er þreytt á að finnast ég þurfa að réttlæta og verja starfið mitt”
Fréttir
Í gær

Svona er Donald Trump sagður ætla að stöðva stríðið í Úkraínu

Svona er Donald Trump sagður ætla að stöðva stríðið í Úkraínu
Fréttir
Í gær

Staðfesta átta ára fangelsis­vist yfir Mohamad

Staðfesta átta ára fangelsis­vist yfir Mohamad
Fréttir
Í gær

Jón Gnarr fær þingsæti þrátt fyrir skilorðsbundinn dóm – Tvíhöfði truflaði Alþingi með gríninnslagi

Jón Gnarr fær þingsæti þrátt fyrir skilorðsbundinn dóm – Tvíhöfði truflaði Alþingi með gríninnslagi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Árásin í Svíþjóð: „Þið ættuð að yfirgefa Evrópu“ – Sýrlendingar meðal þeirra sem létust

Árásin í Svíþjóð: „Þið ættuð að yfirgefa Evrópu“ – Sýrlendingar meðal þeirra sem létust
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vendingar í rannsókn dularfyllsta morðmáls Evrópu – Böndin beinast að tæpum svissneskum sérsveitarmanni

Vendingar í rannsókn dularfyllsta morðmáls Evrópu – Böndin beinast að tæpum svissneskum sérsveitarmanni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Brynjar Karl birtir myndband sér til varnar – „I rest my case, your honor!“

Brynjar Karl birtir myndband sér til varnar – „I rest my case, your honor!“