Landsréttur sneri við í dag, föstudaginn 5. febrúar, dómi Héraðsdóms Reykjaness frá því í júní 2019, yfir manni sem hafði verið sakfelldur fyrir að kýla dóttur sína í andlitið svo hún hlaut af verulega áverka. Til grundvallar sýknudómi Landsréttar liggur ákvæði úr mannréttindasáttmála Evrópu sem kveður á um rétt sakbornings um milliliðalausa sönnunarfærslu og að láta gagnspyrja vitni fyrir dómi. Dóttir mannsins og systur skoruðust undan því að bera vitni fyrir dómi en þær höfðu gefið skýrslu hjá hjá lögreglu og héraðsdómur hafði meðal annars stuðst við þann framburð er hann komst að niðurstöðu sinni.
Þegar stúlkan fór á slysadeild í kjölfar atviksins sagði hún læknum að hún hefði fallið niður stiga. Einn læknir sagði að áverkar hennar gætu samrýmst því en annar taldi að bólga í andliti samrýmdist betur hnefahöggi. Stúlkan hlaut nefbrot, bólgu yfir hægra kinnbeini og hreyfieymsli yfir kjálkaliðinn.
Í kjölfar atviksins flutti stúlkan tímabundið inn til vinkonu sinnar. Sagðist hún óttast foreldra sína og að hún hefði búið við langvarandi ofbeldi á heimilinu. Nokkru síðar hafði vinkonan samband við lögreglu og sagði bróður stúlkunnar vera á leiðinni heim til hennar til að ná í hana og að hann hótaði að drepa systur sína. Lögregla koma á vettvang og við skýrslugjöf hjá lögreglu hafði stúlkan aðra sögu að segja en á slysadeildinni og sagði föður sinn hafa beitt sig ofbeldi. Orðrétt sagði stúlkan við lögreglumann: „Þú veist ég næ ekki að opna mig alveg ef þetta fer til pabba og mömmu…“ og „ég er ekki að fara að segja nákvæmlega um þetta ef þetta er eitthvað sem fer til mömmu og pabba, af því að ég nenni ekki að standa í þeim.“
Stúlkan leitaði til geðdeildar vegna andlegra afleiðinga af meintu ofbeldi. Um það segir í héraðsdómi: „Hjúkrunarfræðingur sem tók á móti brotaþola þar lýsti því fyrir héraðsdómi að brotaþoli hefði verið mjög hrædd og illa farin andlega þegar hún leitaði til hennar. Hún hefði lýst því að faðir hennar hefði veitt henni áverka og að hún hefði sagt ósatt um orsakir þeirra á slysadeild.“
Faðirinn neitaði sök. „Hann sagðist hafa verið að vinna fram undir morgun þann dag sem um ræðir í ákæru og því verið sofandi þegar brotaþoli fékk áverkana. Hann hefði síðan frétt hjá eiginkonu sinni um kvöldið að brotaþoli hefði dottið. Þá staðfesti hann að brotaþoli hefði farið til vinkonu sinnar eftir að atvikið átti sér stað. Í skýrslu ákærða hjá lögreglu staðfesti hann að brotaþoli og móðir hennar hefðu flutt af heimilinu í júlímánuði eftir rifrildi,“ segir í texta Landsdóms.
Fyrir héraðsdómi hafði maðurinn verið dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða stúlkunni 400.000 þúsund krónur. Landsréttur sýknaði manninn hins vegar og vísaði skaðabótakröfum frá dómi. Sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, sem og áfrýjunarkostnaður.