Guðmundur Kristjánsson í Brimi hefur keypt jörðina Þingvelli í Helgafellssveit á 170 milljónir króna. Um er að ræða tilkomumikla sjávarjörð á Snæfellsnesi. Fyrir á Guðmundur stóra jörð á nesinu, en hann er sjálfur uppalinn á Rifi en kallar sig Ólsara.
Jörðin Þingvellir í Helgafellssveit á Snæfellsnesi hefur samkvæmt heimildum DV verið seld í heilu lagi til Guðmundar Kristjánssonar, oft kennds við útgerðarfyrirtækið Brim. Herma heimildir DV að kaupverðið hafi verið 170 milljónir króna. Seljendur eru systkinin Hilmar, Kristján, Kristín og Hrafnhildur Hallvarðsbörn. Foreldrar þeirra bjuggu á jörðinni og ólust systkinin þar upp. Hilmar Hallvarðsson og Alda Hrund Einarsdóttir eru í dag skráð til heimilis á Þingvöllum.
Jörðin hafði verið á sölu í tvö ár og óskað var eftir tilboðum. Að minnsta kosti þrjú tilboð bárust. Það fyrsta hljóðaði upp á 130 milljónir. Þegar það lá fyrir, herma heimildir DV, gerðu þau Guðmundur í Brimi og ónefnd íslensk kona í New York tilboð á víxl uns Guðmundur hafði betur með 170 milljóna tilboði sínu.
Jörðin telur heila 316 hektara og er staðsett rétt sunnan við Stykkishólm á Snæfellsnesi. Um er að ræða gullfallega sjávarströnd og samkvæmt eignamarkalýsingu fasteignaskrár teygja landamörkin sig út í Breiðafjörðinn og tilheyra eyjarnar Eyjargafl og Klofningar jörðinni. Liggur landareignin að sjó á þrjá kanta, en vegurinn að bænum Þingvöllum liggur í gegnum jörðina Borgarland.
Guðmundur er sjálfur frá Rifi og er Snæfellingur í húð og hár. Í samtali við DV vildi Guðmundur ekki tjá sig um sín einkamál, en var fljótur að leiðrétta ásakanir blaðamanns um að hann væri frá Ólafsvík. „Ég er Ólsari, en er frá Rifi.“ Samkvæmt heimildum DV liggja fjölskyldubönd Guðmundar þó einnig til Stykkishólms og er Guðmundur því kominn nálægt sínum heimahögum með kaupunum á jörð Þingvalla.
Mikil ferðaþjónusta er á svæðinu og liggja fyrir metnaðarfullar ætlanir heimamanna um frekari uppbyggingu. Í Stykkishólmi eru fjölmörg hótel, mikil og blómleg útgerð og ferðaþjónusta tengd útgerðinni. Hafa heimamenn meðal annars boðið ferðamönnum upp á veiðiferðir út á Breiðafjörð að ná sér í skelfisk sem er svo matreiddur og borðaður í ferðinni. Þá hafa kajak-ferðir frá Stykkishólmi notið mikilla vinsælda. Eitt fyrirtækið, Kontiki tours, hefur meðal annars gert út á sjókajak-ferðir frá bænum og leitt ferðamenn að strönduðu skipi sem prýðir strandlengju hinnar nýju jarðar Guðmundar.
Ekki er ljóst hvort Guðmundur ætlar sér að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu, en fyrir á Guðmundur jörðina Hausthús í Eyja- og Miklaholtshreppi á sunnanverðu Snæfellsnesi. Hausthús á Guðmundur í gegnum félagið Hausthús ehf. sem er svo í eigu Fasteignafélagsins B-16 ehf., sem er í 100% eigu hans sjálfs. Fasteignafélagið B-16 ehf. hefur meðal annars verið stórtækt í fasteignaviðskiptum í borginni. Samkvæmt ársreikningi Fasteignafélagsins B-16 ehf. frá árinu 2019 námu eignir félagsins um 2,7 milljörðum króna, þar af er eignarhlutur í öðrum félögum um 922 milljónir og viðskiptakröfur um 1,7 milljarðar.
Fasteignafélagið B-16 ehf. á svo talsvert af dótturfélögum, Fiskines ehf., XX25 ehf., Línuskip ehf., Fjalladeplu ehf., Hausthús ehf., Granda ehf., og svo hluti í félaginu Kristjáni Guðmundssyni ehf., og Fiskitanga ehf.
Jörðin Hausthús er um 1.316 hektarar en jörðin er hlutuð niður í nokkrar sérmetnar einingar og er vestasta býli í Eyjahreppi sem Guðmundur dvelur jafnan á um verslunarmannahelgar.
Hvort sem Guðmundur ætlar sér í ferðaþjónustu eða ekki má fastlega gera ráð fyrir því að hann fái einhverja túrista í heimsókn að loknum Covid-faraldrinum. Árið 2016 sagði RÚV frá því að villtir túristar í leit að þjóðgarðinum Þingvöllum birtust oft á hlaði bóndans á Þingvöllum. Er um að ræða misskilning sem verður til við notkun á GPS-tækjum, sem senda grandalausa túristana 150 kílómetra í ranga átt. Sagði Sumarliði Ásgeirsson bóndi í viðtali við RÚV á þeim tíma að hann benti fólki á að taka þessu rólega enda taki ekki nema tvo tíma að keyra til baka. „En náttúrulega í ókunnugu landi og oft á fyrsta degi í landinu. Svo þetta er oft svolítið fát og pat á þeim,“ sagði Sumarliði.