Daði Már Kristófersson, varaformaður Viðreisnar og prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, varar við því að verið sé að einkavæða Íslandsbanka undir þeim formerkjum að væntanlegur hagnaður af rekstri bankans renni í vasa nýrra eigenda, en áhættan af hugsanlegu tapi af rekstrinum verði áfram á herðum almennings.
Daði vísar í grein Gylfa Zoega í Kjarnanum frá því í síðustu viku þar sem Gylfi færir fyrir því rök að rekstur banka sé ólíkur rekstri venjulegra fyrirtækja. Bendir hann á að þetta kunni að hafa mikil áhrif á verðmæti banka við sölu.
Daði skrifar:
Hvaða áhrif hefði það á markaðsvirði Íslandsbanka ef hann yrði seldur án stuðnings ríkisins? Án lánveitanda til þrautavara? Án innistæðutrygginga? Með skilyrði um að ríkið mundi aldrei koma honum eða viðskiptavinum hans til aðstoðar ef illa færi?
Segir Daði að viðbúið sé að virði bankans myndi falla.
En erum við þá ekki að selja bankann með loforði um hugsanleg ríkisútgjöld ef illa fer? Kostnað sem fellur á samfélagið? Verður ekki að taka tillit til þessa kostnaðar við mat á tilboðum í Íslandsbanka? Hefði ekki átt að setja viðmið um eigendur og reglur um ábyrgð eigenda áður en ráðist er í söluna? Eða ætlum við að hámarka skammtímagróða og vona það besta?
Fjármálaráðuneytið tilkynnti í lok janúar að ákveðið hefði verið að hefja sölumeðferð á hlutum í Íslandsbanka. Kemur fram í tilkynningunni að hafist yrði handa við að undirbúa útboð á eignarhlutum ríkisins í bankanum og að skrá þá á markað. Bankasýslu ríkisins hefur verið falið að útfæra söluna með eftirfarandi ábendingar að leiðarljósi:
Þá er minnkun áhættu ríkisins af svo stórum eignarhlut í fjármálakerfinu sagt eitt höfuð markmið ríkisins með sölu á hlutnum.