Clemens Fuest, stjórnandi Ifo stofnunarinnar í München í Þýskalandi, er einn þeirra sem er ósáttur við hversu illa það gengur að afla bóluefna og dreifa þeim. „ESB ætti að greiða framleiðendunum bónus fyrir hvern skammt sem er afhentur fyrr en samið var um. Það myndi auka kostnaðinn um milljarða evra en það væri þess virði því það er miklu ódýrara en að halda sóttvarnaaðgerðunum áfram og loka þar með mikilvægum hluta af efnahagslífi Evrópu,“ sagði hann að sögn Jótlandpóstsins.
Verg þjóðarframleiðsla aðildarríkja ESB er 14 billjónir evra á ári eða 270 milljarðar evra á viku.
„Það getur verið erfitt að leggja mat á annan kostnað en hann getur verið mjög hár til langs tíma litið. Hver er raunkostnaðurinn við að hafa skóla lokaða? Hvað kosta þau mannslíf sem tapast vegna skorts á bóluefnum?“ spurði Fuest.
Hann hefur í samvinnu við Daniel Gros, forstjóra hugveitunnar Centre for European Policy Studies, reiknað út efnahagslegan kostnað við langvarandi sóttvarnaaðgerðir. „Hver aukaskammtur af bóluefni, sem verður afhentur 2021, er talin vera að verðmæti 1.500 evra. Hæsta verð sem greitt er fyrir einn skammt er 15 evrur. Allir sjá að það er fjárhagslegur ávinningur af því að verðlauna framleiðendurna með því að greiða bónus fyrir hvern skammt sem er afhentur fyrir umsaminn tíma,“ segja þeir í minnisblaði.