En forsvarsmenn leikanna stefna ótrauðir að því að þeir verði settir 23. júlí. „Við erum ekki að velta fyrir okkur hvort leikarnir verða haldnir. Við erum að skipuleggja framkvæmd þeirra,“ hefur The Guardian eftir Thomas Bach, sem á sæti í Alþjóðaólympíunefndinni.
Shinzo Abe, fyrrum forsætisráðherra Japan, sagði, þegar tilkynnt var um frestun leikanna á síðasta ári, að það að halda þá á þessu ári verði til marks um fögnuð mannkynsins á að hafa sigrast á kórónuveirunni. En arftaki hans í embætti, Yoshihide Suga, glímir nú við þann vanda að þjóð hans er ekki mjög hlynnt því að leikarnir fari fram og er það algjör viðsnúningur frá því sem áður var. Í nýrri skoðanakönnun, sem Kyodo fréttastofan gerði, sögðust 80% vera þeirrar skoðunar að fresta eigi leikunum eða jafnvel aflýsa þeim með öllu.
Það eru miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi fyrir Alþjóðaólympíunefndina og Tókýó og því mikill þrýstingur á að leikarnir fari fram. Meðal þess sem framkvæmdaaðilar eru að skoða er að gera að skilyrði að þátttakendur séu bólusettir. Það þykir hins vegar illfær leið því það þykir siðferðilega rangt að láta ungt og heilsuhraust fólk fara fram fyrir aðra sem bíða eftir bólusetningu. Ólympíunefndin og japanskir embættismenn hafa fullyrt að ekki verði gerð krafa um að íþróttamenn hafi verið bólusettir.
Bólusetning gegn kórónuveirunni er ekki enn hafin í Japan og hefst ekki fyrr en í lok febrúar. Þá verða heilbrigðisstarfsmenn í forgangi. Í apríl hefst bólusetning allra 65 ára og eldri en það eru 36 milljónir manna. Reiknað er með að bólusetning þess hóps taki um þrjá mánuði og því verður stór hluti þjóðarinnar enn óbólusettur þegar leikarnir eiga að fara fram.