Fyrri leikur Liverpool og RB Leipzig í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu mun ekki fara fram í Þýskalandi.
Þetta varð ljóst eftir að yfirvöld í Þýskalandi bönnuðu allar komur einstaklinga til landsins frá löndum þar sem stökkbreytt Covid-19 veira, breska afbrigðið svokallaða, hefur gert vart um sig.
Liðin áttu að mætast í Leipzig þann 16. febrúar næstkomandi en nú er ljóst að leika verður annaðhvort á Anfield, heimavelli Liverpool eða hlutlausum velli.
Evrópska knattspyrnusambandið (Uefa) vinnur nú að mögulegri lausn á þessum vanda með þýska knattspyrnusambandinu og yfirvöldum í Þýskalandi.
Möguleiki er á að félögin skipti á leikjum þar sem að fyrri leikur liðanna gæti farið fram í Liverpool og seinni leikurinn í Leipzig ef ferðabanninu verður aflétt.