Tamningakona um tvítugt fékk hluta af kröfu sinni gegn konu sem hún starfaði fyrir dæmda sér í vil við Héraðsdóm Reykjavíkur í gær.
Unga konan stefndi þeirri eldri til greiðslu vegna vinnu hennar við þjálfun hesta á tímabilinu september 2018 til mars 2019, auk annarra verkefna, meðal annars passaði hún kött stefndu, sem er kona á fimmtugsaldri, og gætti húss hennar.
Þá krafðist ungan konan greiðslu fyrir útlagðan kostnað, meðal annars vegna kaupa á hestasjampói og járningabúnaði. Einnig taldi hún vera vangoldna reikninga fyrir hagagöngu með hestana auk einkakennslu í hestamennsku. Hestarnir sem konan tamdi heita Von, Vigdís, Sinfónía, Ársól og Sýrnir. Átti hún að fá 30.000 krónur fyrir mánaðarþjálfun hvers hests en þó minna í þeim tilvikum þar sem þjálfunin hafði ekki staðið allan mánuðinn.
Einnig voru inni í kröfunni meintur eignarhlutur í hestinum Ogranistason sem konurnar höfðu keypt saman. Samtals hljóðaði krafan upp á tæplega 425 þúsund krónur.
Konurnar hófu samstarf árið 2016 en eins og að framan greinir miðast fjárkröfur ungu konunnar við um hálfs árs tímabil frá 2018 til 2019. Það flækti málið að fyrirkomulagið hafði verið reikningslaus viðskipti, eldri konan lagði inn á reikning ungu konunnar eftir samkomulagi. Þegar unga konan taldi sig ekki hafa fengið greitt það sem henni bar útbjó hún óformlegan reikning yfir það sem hún taldi sig eiga inni. Þar tefldi hún fram þjálfunardagbók sem hún hafði haldið á tímabilinu en lítið var til af öðrum gögnum um þessi viðskipti.
Hin konan gerði gagnkröfu á móti vegna vanefnda á verki sem hún taldi sig hafa greitt stúlkunni fyrir. Var sá reikningur upp á 190.000 krónur. Sagði hún að alltaf hefði staðið til að gera upp við stúlkuna en með skuldajöfnun á móti í samræmi við þetta.
Það hafði áhrif á niðurstöðu dómsins að litlum gögnum um viðskiptin var til að dreifa. Af þeim sökum hafnaði dómurinn sumum kröfum ungu konunnar og gagnkröfu hinnar stefndu. Segja má að unga tamningakonan hafi haft nokkurn sigur í málinu því sú stefnda var dæmd til að greiða henni 225.000 krónur með dráttarvöxtum. Einnig þarf hún að greiða 300.000 krónur í málskostnað.