Ísak Bergmann Jóhannesson hafnaði svakalegu tilboði frá enska úrvalsdeildarliðinu, Wolves ef marka má hlaðvarpsþáttinn Dr. Football.
IFK Norrköping hafði samkvæmt Hjörvari Hafliðasyni áhuga á að selja Ísak Bergmann til Wolves en þessi 17 ára íslenski knattspyrnumaður vildi ekki fara þangað.
„Það kom alvöru tilboð í hann frá Úlfunum, ég fékk ekki upphæðina,“ sagði Hjörvar í þætti sínum í dag.
Ísak sló í gegn með Norrköping í Svíþjóð á síðasta ári og mörg stórlið hafa fylgst með honum. Ísak vill velja rétt skref fyrir feril sinn.
„Norrköping voru til í þetta en litli gaurinn, 17 ára sagði nei. Ætlar að taka eitt ár í viðbót hjá Norrköping, pælið í því að hafa þennan þroska. Að taka þessa ákvörðun.“
Ljóst má vera að Ísak hefði hækkað hressilega í launum. „Það þarf þroska til að segja nei við svona tilboði.“