Arnór Smárason er mættur heim til Íslands eftir að hafa búið erlendis í sautján ár og leikið sem atvinnumaður í knattspyrnu. Arnór átti farsælan feril á Norðurlöndunum en hann hóf feril sinn með Heerenveen í Hollandi.
Arnór sem ólst upp á Akranesi samdi við Íslandsmeistara Vals í vetur og leikur í efstu deild karla hér á landi í sumar. Arnór gerir upp feril sinn í viðtali við Jóhann Skúla í Draumaliðinu.
Arnór lék árið 2015 með Torpedo Moscow í Rússlandi, hann stoppaði stutt við en það gekk brösuglega að fá launin sín. „Ég lít til baka á þennan tíma mjög vel, ég vissi að ég væri að fara vera þarna í fjóra mánuði. Ég ætlaði að upplifa eins mikið og ég gæti á þessum tíma,“ sagði Arnór um dvölina í Rússlandi.
Vandræði voru að fá launin sín, Arnór þurfti að fara til Moskvu tveimur árum síðar og fá borgað í reiðufé. „Það voru peningavandræði eins og gengur og gerist í þessum löndum, ég fékk launin mín borguð tveimur árum eftir að ég fór. Ég tók flugið með skjalatöskunni tveimur árum síðar, náði í restina. Það var flott ferð.“
Forseti félagsins átti talsvert af reiðufé eins og Arnór komst að þegar leikmenn Torpedo Moscow hótuðu að fara í verkfall.
„Það hafðist fyrir rest, það er leiðinlegt að standa í einhverju svona. Við hótuðum að fara í verkfall eftir einhvern leik, forsetinn kom inn og sagði að ef við myndum vinna leikinn þá væri tvöfaldur bónus í boði strax eftir leik.“
„Við vinnum leikinn og förum inn í klefa, þá segir forsetinn aldrei hafa sagt þetta. Þetta var mikið svona kjaftæði, á æfingunni eftir hótuðu menn að fara ekki út að æfa. Þá fór forsetinn út í bíl og tók poka með sér til baka og dreifði á alla.“