Science Alert skýrir frá þessu. Fram kemur að vísindamenn hafi komist að því að einn af hverjum fjórum kórónuveirusjúklingum hafi tekið eftir breytingum á tungu sinni. Þær hafi bólgnað, bólur myndast á yfirborðinu, sprungur myndast og/eða aflitaðir blettir. Lítill hluti sjúklinganna sagðist einnig hafa fundið fyrir brunatilfinningu í munninum.
Niðurstöðurnar byggjast á rannsókn á 666 sjúklingum með COVID-19 og milda eða miðlungsmikla lungnabólgu. Allir voru þeir á sjúkrahúsi á Spáni. Fyrrnefndum einkennum fylgdi oft missir á bragðskyni en það er mjög algengt einkenni kórónuveirusmits.
Vísindamennirnir vita ekki hversu algeng þessi einkenni eru því sjúklingarnir, sem tóku þátt í rannsókninni, voru með miðlungsmikla sýkingu og vita vísindamennirnir því ekki hvort sömu einkenni geri vart við sig hjá fólki með mildari einkenni eða alvarlegri.
Vitað er að veirusýkingar geta valdið einkennum í munni og á tungunni en ekki liggja mikil gögn fyrir um þetta hjá COVID-19-sjúklingum. Ein af ástæðunum fyrir því er að læknar og vísindamenn forðast að koma meira nær munni sjúklinga en þörf er á þar sem veiran er svo smitandi.
Niðurstöður rannsóknarinnar hafa verið birtar í The British Journal of Dermatology.
Í rannsókninni kom einnig fram að um 40% sjúklinganna höfðu upplifað húðvandamál í lófum eða á iljum. Þar á meðal brunatilfinningu, roða, húðlos og litlar bólur. Um einn af hverjum tíu hafði einnig fengið útbrot.