Þann 9. febrúar verður þingfest sakamál fyrir Héraðsdómi Reykjaness á hendur þeim Guðmundi Guðmundssyni og Knúti Knútssyni en þeir eru ákærðir fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum og fyrir peningaþvætti í rekstri einkahlutafélagsins Aflbinding – járnverktakar. DV hefur ákæruna undir höndum. Hún varðar meint skattsvik upp á samtals um 100 milljónir króna og meint peningaþvætti vegna hagnýtingar þeirra fjármuna.
Fyrirtæki þeirra Guðmundur og Knúts á sér glæsta en þyrnum stráða sögu. Forverinn Aflbinding ehf. varð gjaldþrota árið 2009. Aflbinding fékkst við járnabindingu fyrir staðsteypt mannvirki, eins og segir í frétt Viðskiptablaðsins frá 2014. Stóð Aflbinding að byggingu fjölmargra merkra bygginga, t.d. Höfðatorgs, Háskólans í Reykjavík og Hellisheiðarvirkjunar.
Eftir haustið 2008, á sama tíma og bankakerfið hrundi á Íslandi, fækkaði verkefnum Aflbindingar mikið. Skiptum í þrotabúinu lauk árið 2014, engar eignir fundust í búinu en lýstar kröfur voru upp á rúmlega 63 milljónir. Framkvæmdastjóri Aflbindingar, Knútur Knútsson, sagði við Viðskiptablaðið árið 2014:
„Við vorum búnir að leggja þúsundir tonna í alls konar byggingar. Þetta var komið upp í annað hundrað verkefni. Svo gerist það að haustið 2008 hverfur þetta gjörsamlega allt saman. Við förum úr 140 starfsmönnum árið 2008 niður í átta í desember sama ár.“
Árið 2010 stofnuðu þeir Guðmundur og Knútur fyrirtækið Aflbinding – járnverktakar, en það fyrirtæki hefur nú líka verið afskráð. Guðmundur var stjórnarformaður félagsins en Knútur framkvæmdastjóri.
Þeir félagar eru ákærðir fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti fyrir meirihluta ársins 2017, samtals að fjárhæð rúmlega 37 milljónir króna.
Guðmundur er sakaður um að hafa ekki staðið skil á greiðslu opinberra gjalda fyrir rúmlega 29 milljónir og Knútur fyrir um 32,4 milljónir.
Þess er krafist að Guðmundur og Knútur verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.