Héraðssaksóknari hefur ákært karlmann fyrir að hafa nauðgað og kynferðislega áreitt tvær konur samtímis á heimili mannsins í ágúst 2017. Er maðurinn í ákærunni sagður hafa lagst upp í rúm þar sem konurnar sváfu og káfað á kynfærum konu sem næst honum lá. Þá reyndi maðurinn að stinga fingri sínum inn í endaþarm konunnar á sama tíma og hann káfaði innanklæða á kynfærum og maga hinnar konunnar. Gátu þær ekki spornað við verknaði mannsins sökum ölvunar og svefndrunga.
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og að hann greiði allan kostnað sem hlýst af rekstri mannsins.
Þá gerir önnur konan tveggja milljóna skaðabótakröfu í málinu en hin konan krefst hálfrar milljónar.
Maðurinn er fyrir ætluð brot sín gegn fyrri konunni ákærður fyrir nauðgun. Refsiramminn við nauðgun er í íslenskum lögum eins til sextán ára fangelsi. Meint brot mannsins gegn seinni konunni eru heimfærð á ákvæði um kynferðislega áreitni og liggur allt að tveggja ára fangelsi við slíkum brotum.
Málið hefur þegar verið þingfest í Héraðsdómi Suðurlands og verður tekið til aðalmeðferðar í dómsal á Selfossi þann 26. febrúar næstkomandi.