fbpx
Laugardagur 08.febrúar 2025
Fréttir

Sjö ára baráttu lokið – Dæmdar skaðabætur eftir atvik í þjónustuíbúð á Vestfjörðum

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 3. febrúar 2021 16:52

Samsett mynd. Héraðsdómur Vestfjarða og frá Ísafirði.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ung kona, sem barist hefur fyrir rétti sínum til skaðabóta allt frá því fatlaður maður réðst á hana í þjónustuíbúð sinni er hún var þar vegna starfa sinna haustið 2014, hafði betur í dómsmáli gegn fyrrverandi vinnuveitanda sínum. Héraðsdómur Vestfjarða dæmdi henni í gær um 16,5 milljónir króna í skaðabætur. Konan er talin hafa hlotið varanlegan skaða af árásinni en hún var við nám í menntaskóla er hið örlagaríka atvik átti sér stað.

Vettvangurinn var þjónustuíbúð í búsetukjarna á Vestfjörðum og atvikið átti sér stað að kvöldi 13. október 2014. Konan unga vann í hlutastarfi við umönnun fatlaðs einstaklings sem bjó í eigin íbúð en naut sólarhringsþjónustu frá sveitarfélaginu. Þetta kvöld réðst íbúinn á hana með höggum og spörkum og tók hana hálstaki með þeim afleiðingum að hún varð fyrir varanlegu líkamstjóni á hálshrygg auk þess að verða fyrir varanlegu andlegu tjóni, en hún hefur glímt við mikinn kvíða síðan þessi atburður varð.

Fimm árum eftir atvikið fékk konan bætur úr slysatryggingu launþega og greiðslur úr Sjúkratryggingum Íslands. Námu þær bætur samtals tæplega 8 milljónum króna.

Konan gerði kröfur á hendur sveitarfélaginu á grundvelli sérstaks ákvæðis í kjarasamningi stéttarfélags hennar, Samflots, og Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem kveður á um að ef starfsmaður verður fyrir líkamstjóni af hendi skjólstæðings sveitarfélagsins sem ekki er ábyrgur gerða sinna þá beri sveitarfélagið bótaábyrgð. Í texta ákvæðisins segir orðrétt:

„Aðilar eru sammála um að tilefni sé til að bæta og tryggja rétt þeirra starfsmanna sem slasast við að sinna eða hafa afskipti af fólki sem að takmörkuðu eða engu leyti getur borið ábyrgð á gerðum sínum. Ljóst er að félagsmenn Samflots á sambýlum þurfa í mörgum tilfellum að umgangast og vera innan um fólk sem ekki gengur að öllu leyti heilt til skógar eða getur verið sjálfum sér og öðrum hættulegt. Hluti af starfsskyldum þessara starfsmanna getur falist í því að grípa inn í og stöðva hættulegt atferli hjá viðkomandi. Komið geta upp aðstæður þar sem slíkt verður ekki gert án þess að viðkomandi starfsmaður setji sjálfan sig í ákveðna hættu á því að slasast við framkvæmd starfs síns. Þekkt eru dæmi þess að starfsmenn hafa orðið fyrir áverkum í slíkum tilfellum. Þá er jafnframt ljóst að auknar líkur eru á því að starfsmenn sem vinna við slíkar aðstæður verði fyrir árás af hendi þeirra sem þeim er ætlað að hafa umsjón eða eftirlit með. Rétt þykir að tryggja þessum starfsmönnum bótarétt vegna þess tjóns sem þeir þannig verða fyrir.

 

Aðilar eru sammála um að hefðbundin skilgreining á því hvað sé slys í skilningi vátryggingaréttar og tryggingaskilmála (óvæntur utanaðkomandi atburður) eigi ekki við í öllum tilfellum í störfum ofangreindra starfsmanna. Þannig geta komið upp tilfelli þar sem starfsmaður þarf vísvitandi að leggja líf sittog heilsu í hættu vegna þess að starf hans beinlínis krefst þess. Því er í ákvæði greinar 7.4.1 lagt til að starfsmaður fái bætt það tjón sem hann verður fyrir vegna starfs síns við þessar aðstæður. Um lækkun bóta vegna eigin sakar starfsmanns og ákvörðun bótafjárhæðar að öðru leyti gilda almennar reglur skaðabótaréttarins. Með grein 7.4.1 er kveðið á um sambærilega bótaábyrgð og framkvæmd og gildir um lögreglumenn samkvæmt 30. grein lögreglulaga.“

Sveitarfélagið neitaði bótaskyldu í málinu. Taldi ekki að orsakatengsl á milli árásarinnar  og heilsufars konunnar væru sönnuð né að ljóst lægi fyrir hvað hefði átt sér stað í íbúðinni og hvort konan bæri einhverja ábyrgð á þeim átökum sem urðu eða ekki. Einnig bar sveitarfélagið fyrir sig að hafa fengið tilkynningu seint um atvikið.

Móðir fatlaða mannsins bar vitni fyrir dómi. Hún kvað son sinn vera mjög alvarlega fatlaðan og þetta haust sem árásin átti sér stað, þ.e. haustið 2014, hafi hann átt mjög erfitt. Taldi hún jafnframt að yfirmaður stúlkunnar í þjónustukjarnanum hafi ekki staðið sig í starfi sínu.

Fyrrverandi samstarfskona ungu konunnar sagðist einnig hafa orðið fyrir árásum af hendi mannsins en erfiðlega hefði gengið að fá yfirmenn til að tilkynna um slík atvik.

Dómara þótti heilsufarsleg gögn málsins sem lögð voru fram fyrir hönd konunnar renna stoðum undir fullyrðingar þess efnis að líkamlegan og andlegan skaða hennar mætti rekja til árásarinnar.

Var sveitarfélagið dæmt til að greiða henni um 16,5 milljónir króna í skaðabætur með vöxtum og dráttarvöxtum. Enn fremur þarf sveitarfélagið að greiða um 2,4 milljónir króna í málskotnað sem rennur í ríkissjóð, en konan naut gjafsóknar í málinu.

 

Sjá dóm Héraðsdóms Vestfjarða

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sigga Dögg fagnar sigri eftir niðurstöðu Umboðsmanns Alþingis – „Föstudagur til fjár, baby“

Sigga Dögg fagnar sigri eftir niðurstöðu Umboðsmanns Alþingis – „Föstudagur til fjár, baby“
Fréttir
Í gær

Ævintýralega löng flugferð frá Tenerife til Akureyrar: Enduðu í Glasgow eftir átta tíma flug – Mikið klappað þegar vélin loksins lenti

Ævintýralega löng flugferð frá Tenerife til Akureyrar: Enduðu í Glasgow eftir átta tíma flug – Mikið klappað þegar vélin loksins lenti
Fréttir
Í gær

Landsréttur sneri við dómi úr héraði – Kennari fær skaðabætur eftir að hafa slasast við árás nemanda

Landsréttur sneri við dómi úr héraði – Kennari fær skaðabætur eftir að hafa slasast við árás nemanda
Fréttir
Í gær

Svona er Donald Trump sagður ætla að stöðva stríðið í Úkraínu

Svona er Donald Trump sagður ætla að stöðva stríðið í Úkraínu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Nágrannaerjur í stóru fjölbýlishúsi – Ásakanir um leyndarhyggju og sérmeðferð

Nágrannaerjur í stóru fjölbýlishúsi – Ásakanir um leyndarhyggju og sérmeðferð
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jón Gnarr fær þingsæti þrátt fyrir skilorðsbundinn dóm – Tvíhöfði truflaði Alþingi með gríninnslagi

Jón Gnarr fær þingsæti þrátt fyrir skilorðsbundinn dóm – Tvíhöfði truflaði Alþingi með gríninnslagi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sjálfsvígstaktík norðurkóreskra hermanna í Úkraínu – Berjast fyrir Kim

Sjálfsvígstaktík norðurkóreskra hermanna í Úkraínu – Berjast fyrir Kim
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vendingar í rannsókn dularfyllsta morðmáls Evrópu – Böndin beinast að tæpum svissneskum sérsveitarmanni

Vendingar í rannsókn dularfyllsta morðmáls Evrópu – Böndin beinast að tæpum svissneskum sérsveitarmanni