„Þetta hefur verið frábær tími þótt mér líði eins og það sé óralangt síðan ég spilaði minn fyrsta leik í deildinni,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson árin níu sem hann hefur spilað í ensku úrvalsdeildinni. Viðtalið við Gylfa birtist á Síminn Sport og má sjá það í heild hérna.
Gylfi hefur leikið með Swansea, Tottenham og nú Everton í þessari sterku deild og yfirleitt haft stórt hlutverk í sínu liði.
Gylfi var 15 ára þegar hann flutti út til Englands og gekk í raðir Reading frá Breiðabliki. Eftir þrjú ár í unglinga og varaliði Reading vildi Gylfi fara að spila með karlmönnum og var lánaður til Shrewsbury og Crewe í neðri deildum Englands.
„Það var gríðarlega mikilvægt fyrir mig að spila með fullorðnum karlmönnum því ég hefði lítið grætt á því að spila einhverja varaliðsleiki.“
Gylfi ráðlegur ungum mönnum sem eru í unglinga eða varaliði að grípa tækifærið ef það gefst, það sé mikilvægt að spila með karlmönnum. „Ég spilaði í bæði B-deildinni og C-deildinni og ég græddi á því að fá að spila því ungir leikmenn þurfa fyrst og fremst að spila fótbolta. “
„Það er enginn tilgangur að hanga bara og bíða eftir hlutunum á æfingasvæðinu,“ segir einn besti knattspyrnumaður í sögu Íslands í viðtali sem Morgunblaðið birti frá Símanum.