Sunna Kristín Hilmarsdóttir, fréttamaður hjá Vísir.is og staðgengill fréttastjóra, hefur sagt starfi sínu lausu. Hún greindi frá þessu á Facebook í dag þar sem samstarfsfélagar hennar, meðal annarra, kveðja hana með virktum og ljóst er að hennar verður saknað af fréttastofunni.
Sunna Kristín hóf störf hjá Vísir.is haustið 2014 og hefur starfað þar síðan, síðustu ár sem staðgengill fréttastjóra. Hún er ennfremur varaformaður Blaðamannafélags Íslands
Í færslunni segist Sunna Kristín hafa sagt upp á föstudag og sé ekki komin með nýja vinnu. Þrátt fyrir að vera ekki áhættusækin segir hún þetta auðvitað smá áhættu, og biðlar til vina að láta sig vita ef þeir vita að góðu starfi sem hentar henni.
Í samtali við DV segist hún hreint ekki viss hvort hún sé hér með að yfirgefa fjölmiðlastéttina: „Ég er að minnsta kosti að hætta á Vísi eftir að hafa unnið þar í rúm sex ár. Mér finnst kominn tími á nýjar áskoranir.“
Sunna Kristín er með BA-gráðu í spænsku frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í suður-amerískum stjórnmálum frá University College í London.