Lögreglan í París er nú að rannsaka innbrot á heimili Mauro Icardi framherja PSG og eiginkonu hans, Wanda Nara. Eiginkonan er ekki minna þekkt en leikmaðurinn sjálfur enda er hún einnig umboðsmaður hans og er hörð í horn að taka.
Brotist var inn á heimili þeirra í París um helgina þegar Icardi var að keppa við Lorient með PSG.
Franskir fjölmiðlar segja að skartgripir og úr hafi verið tekinn úr íbúðinin og er verðmæti þeirra sagt 350 þúsund pund eða 62 milljónir íslenskra króna.
Starfsfólk fjölskyldunnar tók eftir innbrotinu snemma á sunnudagsmorgun og lét þá lögreglu vita. Ekki er vitað hvar Wanda og börnin héldu til um helgina.
Lögreglan hefur skoðað íbúð Icardi og Wanda, talið er að þjófarnir hafi brotist inn um glugga. Ekki er um að ræða fyrsta innbrotið sem er framið hjá leikmönnum PSG í París en um er að ræða nokkur innbrot á hverju ári.