Logi Geirsson, fyrrverandi atvinnumaður og landsliðsmaður í handbolta, var ómyrkur í máli er frammistaða Íslands á HM í handbolta í Egyptalandi var gerð upp í HM stofu RÚV í dag. Þátturinn var í kjölfar úrslitaleiksins á HM þar sem Danir lögðu Svía í spennandi leik og hömpuðu heimsmeistaratitlinum í annað skiptið í röð.
Íslendingar höfnuðu í 20. sæti á mótinu sem í sögulegu samhengi er slakur árangur. Ánægja hefur þó virst ríkja meðal almennings með frammistöðu liðsins sem er skipað ungum leikmönnum en liðið þótti sýna góð tilþrif í jöfnum tapleikjum gegn toppliðum Frakka og Norðmanna.
Ísland lagði Marokkó og Alsír að velli en tapaðí fyrir Portúgal og Sviss. Tapleikirnir gegn Portúgal og Sviss hafa helst vakið gagnrýni en Logi segir að liðið hafi fallið á þessum tveimur prófum, þetta séu leikir sem hefðu átt að vinnast. Logi var ómyrkur í máli og sagði að ef einhver annar þjálfari en Guðmundur hefði þjálfað liðið hefði sá verið látinn taka pokann sinn.
Arnar Pétursson, þjálfari kvennalandsliðsins í handbolta og hinn sérfræðingurinn í HM-stofu RÚV, sagði að fjölmargar þjóðir væru að taka miklum framförum. Hann sagðist til dæmis efast um að Brasilía og Argentína stæðu Íslandi að baki í dag. Logi benti á að Japan hefði orðið fyrir ofan okkur á mótinu en hefði ekki átt möguleika í Ísland fyrir örfáum árum.
Arnar sagði að þörf væri á naflaskoðun varðandi landsliðið því við vildum stefna á að komast á topp átta í framtíðinni en jafnframt væru margar þjóðir í mikilli framför í handbolta.