Nokkrum leikjum var að ljúka í 21. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Manchester City vann 1-0 sigur á Sheffield United. Crystal Palace hafði betur gegn Wolves og jafntefli var niðurstaðan í fallbaráttuslag West Brom og Fulham.
Manchester City tók á móti Sheffield United á Etihad vellinum. Aðeins eitt mark var skorað í leiknum. Það gerði Gabriel Jesus strax á 9. mínútu leiksins eftir stoðsendingu frá Ferrán Torres.
Manchester City er eftir leikinn á toppi deildarinnar með 44 stig. Sheffield United er í neðsta sæti deildarinnar með 8 stig.
Á Selhurst Park, mættust heimamenn í Crystal Palace og Wolves. Leikurinn endaði með 1-0 sigri Crystal Palace, það var Eberechi Eze sem tryggði liðinu sigur með marki á 60. mínútu eftir stoðsendingu frá Jordan Ayew.
Crystal Palace er eftir leikinn í 13. sæti deildarinnar með 26 stig, þremur stigum meira en Wolves sem situr í 14. sæti.
Það var boðið upp á markaleik er West Brom tók á móti Fulham á The Hawthorns í fallbaráttuslag. Bobby Reid kom Fulham yfir með marki á 10. mínútu. Leikmenn West Brom svöruðu með tveimur mörkum frá Kyle Bartley og Matheus Pereira á 47. og 66. mínútu.
Það var hins vegar tími fyrir eitt mark í viðbót því að á 77. mínútu jafnaði Ivan Cavaleiro metin fyrir Fulham og tryggði liðinu eitt stig.
West Brom er eftir leikinn í 19. sæti deildarinnar með 12 stig. Fulham er í 18. sæti með 14 stig.
Manchester City 1 – 0 Sheffield United
1-0 Gabriel Jesus (‘9)
Crystal Palace 1 – 0 Wolves
1-0 Eberechi Eze (’60)
West Brom 2 – 2 Fulham
0-1 Bobby Reid (’10)
1-1 Kyle Bartley (’47)
2-1 Matheus Pereira (’66)
2-2 Ivan Cavaleiro (’77)