Rio Ferdinand, greindi frá því á dögunum að Ruud Van Nistelrooy og Cristiano Ronaldo, hefðu rifist hatrammlega á sínum tíma er þeir spiluðu saman hjá Manchester United.
Nistelrooy var pirraður út í Ronaldo sem átti erfitt með að koma fyrirgjöfum inn í vítateiginn á æfingum og sagði honum að ganga til liðs við sirkusinn. Ferdinand telur að atvikið, sem átti sér stað á æfingu hjá Manchester United, hafi að einhverju leyti gert Ronaldo að þeim leikmanni sem hann er í dag.
„Ronaldo var með boltann út á kanti, gerði gabbhreyfingar á meðan Nistelrooy tók hlaupið inn á teig. Ronaldo gaf ekki boltann, Nistelrooy brjálaðist og öskraði ‘Hann ætti að vera í sirkusnum, ekki á vellinum.’ Nistelrooy yfirgaf æfinguna í kjölfarið,“ sagði Rio Ferdinand um atvikið.
Það hafi hins vegar ekki leikið vafi á því hversu hæfileikaríkur Ronaldo var.
„Hann sýndi ekki sitt besta strax en maður sá hversu hæfileikaríkur hann var og hann gæti skemmt áhorfendum. Leikmenn áttu það til að brjálast út í hann á æfingum,“ sagði Rio Ferdinand.