Abdelaziz Mihoubi er íslenskur ríkisborgari sem kom hingað til lands á síðasta áratug síðustu aldar. Þá var hann landsliðsmaður Alsír í handbolta en hér á landi gerði hann garðinn frægan með Val, lék með meistaraflokki og þjálfaði yngri flokka.
Abdelaziz – eða Aziz, eins og hann kallar sig – kynntist pólskri konu á Íslandi. Bjuggu þau saman í um 12 ár og eru raunar enn löglega hjón. Aziz og pólska konan eignuðust tvö börn sem eru langt undir lögaldri í dag, og raunar langt undir 10 ára aldri. Aziz og konan ákváðu að skilja að skiptum. Skömmu eftir að þau hættu saman tók konan börnin með sér fyrirvaralaust til Póllands án þess að ræða við Aziz.
Samkvæmt upplýsingum frá lögmanni Aziz, Fróða Steingrímssyni, var þetta brottnám barnanna kært til lögreglu á grundvelli 193. greinar almennra hegningarlaga, en þar segir: „Hver, sem sviptir foreldra eða aðra rétta aðila valdi eða umsjá yfir barni, sem ósjálfráða er fyrir æsku sakir, eða stuðlar að því, að það komi sér undan slíku valdi eða umsjá, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 16 árum eða ævilangt.“
Þann 8. desember síðastliðinn úrskurðaði áfrýjunardómstóll í Varsjá að konan skyldi fara með börnin aftur til Íslands. Felldi hann úr gildi úrskurð héraðsdóms þar í landi sem úrskurðaði móðurinni í vil. Hafði hún 14 daga til að fara eftir úrskurðinum en hún er enn í Póllandi með börnin.
Aziz fullyrðir í samtali við DV að konan ætli ekki að hlíta úrskurðinum: „Íslensk yfirvöld gera ekkert. Hún segir að hún muni ekki snúa til baka til Íslands og það muni þurfa að flytja hana með valdi. Með því að fara með börnin út, halda þeim í Póllandi og neita þeim um að tala við mig er hún að brjóta á rétti barnanna sem eru íslenskir ríkisborgarar. Hún er heldur engan veginn að uppfylla þarfir barnanna en hún býr í einu herbergi með þeim í Póllandi.“
Lögmaður Aziz, Fróði, segir að dómsmálaráðuneytið sé byrjað að vinna í því að fá börnin heim.
Fyrir rétti í Póllandi sakaði konan Aziz um ofbeldi. Segir hún hann hafa upppnefnt sig, takmarkað sjálfstæði hennar, ásakað hana um hjúskaparbrot og þvingað hana til kynlífs. Einnig hafa hann öðru hvoru slegið hana kinnhest og ýtti henni á borð og tekið hana kverkataki.
Auk þess taldi hún Aziz ekki getað séð sómasamlega fyrir fjölskyldunni. Þá sagði hún að það yrði áfall fyrir börnin ef þau yrðu rifin upp og neydd til Íslands. Það yrði líka áfall fyrir þau að vera neydd til að umgangast Aziz vegna lítilla tengsla við hann enda hafi hún ávallt sinnt börnunum meira en hann.
Héraðsdómur tók tillit til röksemda konunnar en áfrýjunardómstóll í Varsjá sneri þeim úrskurði við.
Áfrýjunardómstóllinn telur ásakanir um ofbeldi ekki vera trúverðugar enda hafi ekkert komið fram sem bendi til þess að konan hafi nokkurn tíma sakað hann um ofbeldi áður og lögregla hafi aldrei verið kölluð að heimili hjónanna. Þá er það talið málstað Aziz í hag að þegar hann kærði brottnámið vildi hann ekki að lögregla myndi handtaka konuna við brottför á Keflavíkurflugvelli þar sem hann taldi að það myndi vekja börnunum ótta. Þá segir dómurinn að gögn sýni að Aziz hafi gert sér far um að vera í sambandi við börnin með rafrænum leiðum eftir að móðirin fór með þau til Póllands.
Varðandi fullyrðingar um vangetu Aziz til að sjá fyrir börnunum bendir áfrýjunardómstóllinn á að hann sé ekki í vanskilum við opinbera aðila.
Í úrskurðinum er móðirin sökuð um að hafa valdið róttækum breytingum á lífi barnanna og virt þarfir þeirra og tilfinningar að vettugi er hún flutti þau fyrirvaralaust til annars lands þar sem talað er annað tungumál en í heimalandinu og þau sett í aðra leikskóla.
Áfrýjunardómstóllinn tekur enga afstöðu til þess hver eigi að fara með forræði barnanna og leggur það í hendur íslenskra dómsyfirvalda að skera þar úr um. Í úrskurði sínum byggir dómstóllinn á ákvæðum Haag-sáttmálans um að standa beri með skilvirkum hætti gegn ólögmætum aðgerðum sem hafa það að markmiði að nema börn á brott þar sem einstaklingur brýtur gegn annarri manneskju, stofnun eða samtökum, sem felst í að hindra viðkomandi umsjá með barni.
Lögin hafa því talað Azis í hag en enn hefur hann ekki fengið að sjá börnin sín. Hann vill þrýsta á íslensk stjórnvöld um að stuðla að því að úrskurðinum verði fullnægt. „Þetta eru börnin mín, þau eru íslensk og þurfa vernd eins og önnur íslensk börn,“ segir hann.