Landsréttur þyngdi í dag refsingu yfir manni sem fundinn var sekur um að brjótast inn bílskúr þar sem fyrrverandi kærasta hans svaf ásamt öðrum manni, ljósmynda þau nakin er þau lágu sofandi hlið við hlið og dreifa svo myndunum til að minnsta kosti nokkra vina sinna. Á myndinni mátti sjá hvar konan liggur hálfnakin með sæng um sig miðja, að því er segir í dómnum. Karlmaðurinn lá þá nakinn við hlið hennar.
Karlmaðurinn var fyrir þetta ákærður fyrir að hafa sært blygðunarsemi konunnar og stórfelldar ærumeiðingar.
Ákærði og konan höfðu verið kærustupar til skamms tíma, eða á milli júlí 2014 til september 2015. Þar af voru þau í sambúð síðustu níu mánuði þess tímabils, eða frá janúar til september 2015. Tveimur dögum eftir að sambúðinni lauk mun þá nýorðinn fyrrverandi kærasti konunnar hafa notað lykil sem hann hafði til þess að fara inn í íbúð konunnar í leyfisleysi. Lágu þar konan og maðurinn eins og fyrr var lýst. Maðurinn ljósmyndaði fólkið hvar það lá og sendi svo myndirnar til vina sinna í gegnum Facebook Messenger forritið í símanum sínum.
Við skýrslugjöf viðurkenndi maðurinn að hafa tekið myndina og sent hana til þriggja vina sinna. Kvaðst hann vera í áfalli yfir því sem hann sá þegar hann kom heim til sín í umræddan bílskúr. Sagðist hann hafa viljað sanna fyrir þeim að umræddur atburður hafi gerst. Segir í dómnum: „Spurður um ástæðu þess sagðist ákærði hafa viljað eiga myndina ef brotaþoli myndi, þegar hann myndi ræða við hana síðar, neita því að karlmaður hefði gist hjá henni, sem hún hefði einmitt gert síðar þennan sama dag. Eftir að hafa tekið myndina kvaðst ákærði hafa farið út úr bílskúrnum.“
Ákærði sagði jafnframt fyrir dómi að leiguna fyrir september hafi þau greitt sameiginlega, og íbúðin væri full af innanstokksmunum sem hann átti. Íbúðin var því, að hans sögn, þeirra auk þess sem þau höfðu keypt sér bíl saman.
Stuttu eftir myndatöku mannsins hafi konan fengið veður af því að umrædd mynd af sér væri komin í dreifingu. Hún kærði hins vegar ekki málið fyrr en í janúar 2016, eða um einu og hálfu ári síðar. Bar hún því við fyrir dómi að hún hefði ekki haft myndina sjálf í sinni vörslu fyrr en þá.
Fyrir dómi kom fram að vitneskjan um að myndin af sér væri í dreifingu hefði valdið henni mikilli streitu. Segir í dómnum: „Brotaþoli sagðist hafa glímt við mikla vanlíðan vegna myndarinnar. Fullyrti brotaþoli að mjög margir hefðu séð myndina og vísaði hún í því sambandi til þess að hún hefði fengið fregnir af myndinni frá mörgum aðilum. Kvíði og félagsfælni, sem brotaþoli hefði glímt við fyrir, hefðu versnað mikið vegna málsins.“
Tekist var á um það fyrir dómi hvort „lostuga athæfið“ þyrfti að vera „athöfn af kynferðislegum toga sem stjórnast af kynhneigð manna en gengur skemmra en samræði og önnur kynferðismök,“ og þá hvort það að senda vinum sínum myndirnar til staðfestingar á að atburður hafi átt sér stað væri athæfi „af kynferðislegum toga.“
Héraðsdómur Reykjaness komst að því í janúar í fyrra að maðurinn hafi með þessu athæfi sært blygðunarsemi konunnar með lostugu athæfi. Þá var hann jafnframt fundinn sekur um stórfelldar ærumeiðingar gegn brotaþola.
Maðurinn var árið 2014 sakfelldur fyrir fjárdrátt í Héraðsdómi Vesturlands, og rauf hann því skilorð með broti sínu gegn konunni. Þótti tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, hæfileg refsing í ljósi alls ofangreinds. Þurfti maðurinn í héraðsdómi að greiða um milljón í sakarkostnað og þóknanir lögmanna auk 300 þúsund króna í bætur til konunnar.
Landsréttur þyngdi svo í dag dóm héraðsdóms í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og skal hann greiða konunni 400 þúsund krónur í bætur auk rúmlegra tveggja milljóna í málskostnað.