Arsenal tekur á móti Manchester United í 21. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag. Leikurinn fer fram á Emirates Stadium, heimavelli Arsenal og hefst klukkan 17:30.
Þessi lið hafa oft háð harða baráttu, bæði innan og utan vallar. Rígurinn náði hápunkti þegar liðin léku undir stjórn Arsené Wenger og Sir Alex Ferguson og voru þá að berjast sín á milli um Englandsmeistaratitilinn. Stuðningsmenn liðanna upplifðu frábær mörk og hatrammar deilur.
Liðin mættust í undanúrslitum enska bikarsins árið 1999. Leikur liðanna endaði með 0-0 jafntefli og því þurfti að endurtaka hann. Staðan eftir venjulegan leiktima í seinni leiknum var 1-1 og því þurfti að grípa til framlengingar.
Á 109. mínútu fékk Ryan Giggs, leikmaður Manchester United, boltann á sínum eigin vallarhelming. Hann þræddi með boltann upp vinstri kantinn, lék á fjóra leikmenn og kom boltanum í netið úr þröngu færi. Markið tryggði sæti Manchester United í úrslitum enska bikarsins og er enn þann dag í dag eitt það flottasta sem hefur verið skorað í keppninni.
Í September árið 2003 mættust liðin á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni undir stjórn Wenger og Ferguson. Spennustigið var hátt í leiknum og meða annars var Patrick Vieira, fyrirliði Arsenal, rekinn af velli.
Það nálgaðist leikslok og staðan var 0-0. Boltinn berst inn í vítateig Arsenal þar sem Martin Keown, leikmaður liðsins brýtur á framherjanum Diego Forlán og Manchester United fær vítaspyrnu.
Ruud Van Nistelrooy, tekur spyrnuna en brennir af. Martin Keown fagnar happi og hæðist í kjölfarið að hollendingnum. Leikurinn endaði með markalausu jafntefli og er dómarinn flautaði til leiksloka hópuðust leikmenn Arsenal í kringum Nistelrooy og létu tilfinningar sínar bersýnilega í ljós.
„Wenger hafði ekkert að segja um þetta eftir leik. Hann brosti bara og lét mig sjá um að tala. Ég sagði við hann ‘ég held að ég hafi farið aðeins fram úr mér’,“ sagði Keown um atvikið nokkrum árum seinna.
Árið 2005 sauð allt upp úr í leikmannagöngunum fyrir leik liðanna. Patrick Vieira, þáverandi fyrirliði Arsenal á þá að hafa skotið fast á Gary Neville, leikmann Manchester United. Roy Keane, fyrirliði Manchester United, tók ekki vel í það og upp hófust miklar deilur milli leikmannanna.
„Þetta var Gary Neville að kenna, það var verið að níðast á honum í leikmannagöngunum. Ég er frekar rólegur maður en ef þú ferð yfir strikið þá mun ég bregðast við því,“ sagði Roy Keane um atvikið er hann var spurður út í það á Sky Sports í fyrra.
Í leik liðanna í október árið 2000 skoraði Thierry Henry, framherji Arsenal, eitt flottasta mark sem hefur litið dagsins ljós úr viðureignum liðanna.
Henry sneri baki í markið og fær sendingu fyrir utan teig. Hann heldur Dennis Irwin, varnarmanni Manchester United, frá boltanum, flikkar boltanum upp í loftið og náði ótrúlegu skoti að marki sem endaði í netinu og reyndist sigurmark leiksins.
„Það er ekki hægt að koma í veg fyrir mark eins og þetta, ég trúði ekki mínum eigin augum,“ sagði Sir Alex Ferguson, þáverandi knattspyrnustjóri Manchester United í viðtali eftir leik.
Fyrir leik dagsins er Manchester United í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 40 stig og er í harðri toppbaráttu. Arsenal situr í hins vegar í 9. sæti deildarinnar. Eftir erfiða byrjun á tímabilinu er liðið hins vegar búið að rétta úr kútnum, síðasti tapleikur liðsins í deildinni kom þann 19. desember 2020.