Tvær konur sem eiga leghálssýni í pappakössunum hjá heilsugæslunni eru mjög ósáttar við skort á upplýsingagjöf. Önnur þeirra líkir hrakförum við flutning á leghálsskimunum til heilsugæslunnar við brot á samfélagssáttmála.
„Þetta er svo mikil vanvirðing,“ segir Ásdís Þórólfsdóttir, ein þeirra rúmlega tvö þúsund kvenna sem eiga ógreind leghálssýni í pappakössum hjá heilsugæslunni. „Ég hef þurft að fara í keiluskurð og er í hópi kvenna sem eru kallaðar inn oftar en venjulega. Ef við horfum bara á tölfræðina þá leynast frumubreytingar í einhverjum þessara sýna,“ segir hún.
Greint var frá því í vikunni að ekki verði hægt að rannsaka að fullu þau sýni sem eru í kössum hjá heilsugæslunni þar sem danska rannsóknarstofan sem samið var við hefur ekki burði til að rannsaka sýni í jafn stórum glösum og sýnin eru í. Hluti kvennanna sem sýnin tilheyra þarf því að mæta aftur í sýnatöku.
Flutningur leghálsskimana frá Krabbameinsfélaginu til heilsugæslunnar hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir undirbúningsleysi, en ekki var búið að tryggja aðstöðu og mannafla til að rannsaka lífsýni hér á landi og ekki var heldur búið að ganga frá samningum við rannsóknarstofu um greiningu sýnanna þegar sjálfur flutningurinn átti sér stað.
Vissi í hvað stefndi
Ásdís segist hafa kosið að fara frekar til síns kvensjúkdómalæknis þar sem henni finnist það þægilegra en að fara á Leitarstöðina. „Læknirinn minn vissi alveg í hvað stefndi. Hún segir við mig, í byrjun desember, að hún viti hvorki hvenær né hvernig ég fái niðurstöðurnar. Það sé ekki því hún sé vanhæfur læknir heldur því kerfið sé að hrynja. Hún sagðist bara vera að senda sýnið út í tómið. Hún benti mér líka á að drífa mig í brjóstaskoðun því það væri mikil óvissa um framhald á þeim fyrir konur í mínum aldurshópi,“ segir hún.
Ásdís hefur fengið allar fregnir af málinu í gegn um fjölmiðla, enginn frá heilsugæslunni hefur haft samband. „Ein kona í vinnunni minni á líka sýni og var búin að hringja um allt í leit að sýninu sínu en enginn vissi neitt. Mér finnst þetta brot á þeim samfélagssáttmála að við ætlum að passa upp á heilbrigði kvenna með því að sinna krabbameinsskimunum. Þau gildi hafa verið sett til hliðar,“ segir hún.
„Konurnar í kössunum“
Anna Sif Jónsdóttir á líka sýni í pappakössunum. „Ég fór bara í reglulegt tékk þann 11. nóvember. Strax þá var mér sagt að bið væri á niðurstöðum leghálsstroks, ég man ekki hvernig það var nákvæmlega orðað. Svar vegna brjóstamynda barst 23. nóvember á ísland.is en síðan hef ég ekkert heyrt frá einum eða neinum. Það tók mig smá tíma að átta mig á því að sýnið mitt væri meðal sýnanna í kössunum sem fjallað var um í fjölmiðlum,“ segir hún.
Anna segist vera heppin því það sé engin fjölskyldusaga um krabbamein og aldrei hafi greinst frumubreytingar hjá henni. „Samt sem áður fyllist ég óöryggi þegar ferlið er annað en ég bjóst við og ég kemst ekki hjá því að hugsa: Hvað ef? Ábyrgðaraðilar hefðu getað staðið sig miklu betur í upplýsingagjöf gagnvart okkur „konunum í kössunum“.