Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gaf DV engar upplýsingar þegar blaðamenn leituðu ítrekað eftir því í dag hvort leitað væri að erlendri konu. Fjöldi fólks deildi áhyggjum á Facebook af því að konan væri horfin og hvarf hennar hefði verið tilkynnt til lögreglu.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi nú í kvöld klukkan 21.33 frá sér tilkynningu þar sem segir:
„Vegna fyrirspurna fjölmiðla um erlenda konu, sem lýst hefur verið eftir á samfélagsmiðlum í dag, vill Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu taka fram að konan er heil á húfi. Fregnir um hvarf hennar voru orðum auknar.“
DV er meðal þeirra fjölmiðla sem greindu frá því að fjöldi fólks væri að leita að umræddri konu og að tugir væru að deila því á Facebook að hún væri horfin. Meðal annars ræddi DV við konu sem hafði samband við lögreglu vegna mögulegs mannshvarfs.
Þrír blaðamenn DV hringdu níu sinnum í fjóra fulltrúa lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í dag til að reyna að fá upplýsingar um mögulegt hvarf konunnar og hvort væri verið að leita hennar. Þetta var eftir að þjónustuver lokaði klukkan 16 og áður en frétt var birt um málið.
Sumir þeirra lögreglumanna sem hringt var í svöruðu ekki í símann en notast var við símaskrá sem upplýsingafulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sendi til fjölmiðla. Aðrir vísuðu á tiltekinn lögreglufulltrúa en sá svaraði heldur ekki í símann. Alls reyndu blaðamenn DV að ná tali af fulltrúum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í 2 klukkutíma í dag.
DV sagði einnig frá því að konan væri fundin, áður en yfirlýsing lögreglu var send út.
Sjá: Konan sem lýst var eftir í helstu Facebookhópum landsins er fundin