fbpx
Miðvikudagur 17.júlí 2024
Fókus

Diljá: „Ég spurði Guð mjög oft af hverju hann tók hendurnar af pabba mínum“

Sérstakt að alast upp með fötluðum föður- Fékk oft að heyra særandi athugasemdir

Auður Ösp
Þriðjudaginn 12. janúar 2016 20:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er draumurinn hans að geta tekið utan um börnin sín og afabörnin sín. Við vonum svo sannarlega að það muni rætast. Þetta er nýtt tækifæri fyrir hann,“ segir Diljá Natalía Guðmundsdóttir í samtali við DV.is en hún var þriggja mánaða gömul þegar faðir hennar, Guðmundur Felix Grétarsson lenti í alvarlegu vinnuslysi með þeim afleiðingum að hann missti báða handleggina. Hann bíður þess nú í ofvæni að komast í aðgerð í Frakklandi þar sem græddir munu verða á hann handleggir og styður Diljá föður sinn heilshugar. Hún segir það óneitanlega hafa verið sérstakt að alast upp með fötluðum föður en telur fullvíst að allir geti lært af jákvæðu viðhorfi hans til lífsins.

Fjölmiðlar hafa áður fjallað um Guðmund Felix og sagt frá ferlinu sem hann hefur gengið í gegnum við að komast í aðgerðina umræddu í Lyon í Frakklandi. Þess hefur hann beðið síðan árið 2007. Um ákveðna tilraunaaðgerð er að ræða sem gæti tekið allt að 40 klukkustundir og markar hún ákveðin tímamót þar sem Guðmundur mun þá verða fyrsti maðurinn sem fær nýja handleggi alveg upp við axlir.

Diljá tjáði sig fyrr í dag um föður sinn inni á facebook hópnum Góða Systir. „Í dag eru 18 ár síðan pabbi missti hendurnar í vinnuslysi og var ég aðeins 3 mánaða og systir mín 4 ára. Þetta tók svo á fjölskylduna að sumir hafa ennþá ekki náð sér eftir áfallið og fóru hlutirnir sumstaðar ekki eins og þeir áttu að fara. En samt sem áður gæti ég ekki hugsað mér lífið neitt öðruvísi, pabbi er svo skemmtilegur, sterkur og óeðlilega kraftmikill maður,“ ritar hún og bætir við að sambandið á milli þeirri feðgina sé afar sterkt. „Ég þekki hann náttúrulega ekkert öðruvísi en án handa og þegar ég var lítil þá spurði ég Guð mjög oft af hverju hann tók hendurnar af pabba mínum því við hefðum ekki gert neitt rangt. Guð átti svo sannarlega engan þátt í því.“

„Við vitum aldrei hvað gerist næst eða hvernig lífið fer, þess vegna er það mikilvægasta sem ég geri í dag að njóta lífsins og elska fólkið mitt,“ segir Diljá einnig.

Hún segir mikla blessun fólgna í því að faðir hennar hefði lifað slysið af á sínum tíma, þvert á móti því sem spáð hafði verið. „Hann stóð upp úr þessu og hefur svo sannarlega gert góða hluti síðan. Hann er alltaf að gera góðverk og hjálpa öðrum, mér finnst alltaf jafn merkilegt að hér áður fyrr þegar við vorum saman í sjálfboða starfi í kirkju þá var hann sá eini sem bauð sig fram í það að standa í hurðinni að heilsa og bjóða fólkið velkomið með opnum „örmum.“

„Það er svo ótrúlegt hversu jákvæður hann er alltaf, hann hefur aldrei gefist upp þrátt fyrir að svona mikilvægur partur af honum hafi brunnið af. Hann þurfti að læra að lifa án handa og halda jafnvægi, sætta sig við það að hann gæti aldrei baðað börnin sín aftur, gefið þeim að borða eða tekið utan um þau.“

Sagt að pabbi hennar væri eins og selur

Í samtali við DV.is segir Diljá að faðir hennar, sem og fjölskyldan öll bíði nú þess að hann komist í aðgerðina langþráðu og vonast þau til þess að það muni gerast hvað úr hverju. Hún neitar því ekki að það sé sérstök tilhugsun að eiga bráðum pabba með hendur. „Það er bæði yndisleg og skrítin tilhugsun.“

Hún viðurkennir fúslega að það hafi ekki alltaf verið auðvelt að alast upp með pabba sem var ekki eins og hinir pabbarnir. „Þegar ég var yngri þá gat hann náttúrulega aldrei haldið á mér eða séð um mig. Svo er auðvitað mjög sérstakt að vera barn og þurfa að hjálpa pabba sínum við alls kyns hversdagslega hluti eins og að matast og klæða til dæmis,“ segir hún en tekur fram að þó svo að faðir hennar hafi oft þurft að reiða sig á aðstoð frá öðrum við þarfir daglegs lífs þá hafi hann jafnframt verið mjög duglegur að redda sér sjálfur.

„Oft var líka erfitt að mæta störum og augngotum frá fólki, til dæmis þegar við fórum saman út í búð. Stundum fékk ég líka að heyra andstyggilegar athugasemdir, eins og til dæmis að pabba minn liti út eins og selur og ég var spurð hvort pabbi minn væri sjóræningi.“

„Núna á ég sjálf von á barni og ég veit að hann þráir að geta gert með afabarninu sínu það sem hann gat ekki gert með sínum eigin börnum. Það er draumurinn hans að geta tekið utan um börnin sín og afabörnin sín. Við vonum svo sannarlega að það muni rætast. Þetta er nýtt tækifæri fyrir hann.“

Hún vonast eftir að óbilandi jákvæðni og hugrekki föður hennar geti orðið öðrum til fyrirmyndar. „Það er hægt að læra svo ótrúlega mikið af honum. Hann er jákvæðasta manneskja sem ég hef kynnst. Hann veit að hann getur ekki breytt hlutunum og sættir sig við það. Svo er hann alltaf svo hjálpsamur og alltaf tilbúinn til þess að aðstoða alla í kringum sig. Hann er alltaf jákvæður og í góðu skapi og í rauninni finnst mér hann bara vera alveg magnaður karakter. Hann er klárlega mín fyrirmynd í lífinu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Frosti úthúðar fyrrverandi vinnufélaga sínum

Frosti úthúðar fyrrverandi vinnufélaga sínum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Beverly Hills höll Bennifer formlega komin í sölu – Sjáðu myndirnar

Beverly Hills höll Bennifer formlega komin í sölu – Sjáðu myndirnar
Fókus
Fyrir 5 dögum

Eddie Vedder segist hafa verið hætt kominn – Pearl Jam hættu við tónleika í London sem margir Íslendingar ætluðu á

Eddie Vedder segist hafa verið hætt kominn – Pearl Jam hættu við tónleika í London sem margir Íslendingar ætluðu á
Fókus
Fyrir 5 dögum

Leikarinn steinrunninn á meðan myndband af eftirmála voðaskotsins var spilað

Leikarinn steinrunninn á meðan myndband af eftirmála voðaskotsins var spilað