Eigandi hússins að Kaldaseli í Breiðholti, sem er gjörónýtt eftir eldsvoða þann 25. janúar, heitir Haraldur Rafn Pálsson og hefur starfað sem lögfræðingur.
Haraldur, sem er 33 ára gamall, keypti húsið þann 8. september 2020. Kaupverðið var 79,9 milljónir kr. en húsið er rúmlega 240 fermetrar að stærð. Verðið er nokkuð undir fasteignamati en fasteignamat er oftast töluvert lægra en markaðsverð. Við kaupin greiddi Haraldur 27,9 milljónir með peningum en 52 milljónir með lánsfé.
Fjárnám var nýlega gert í húsinu vegna skuldar við Sýslumannsembættið á Norðurlandi upp á 306 þúsund krónur. Raunar var því þinglýst aðeins viku fyrir brunann, þann 18. janúar þessa árs.
Samkvæmt frétt á Vísir.is í morgun er eldsvoðinn í Kaldseli rakinn til kannabisræktunar.
Engum húsaleigusamningi hefur verið þinglýst á eignina og raunar ber einlæg og opin Facebook-færsla Haraldar um eldsvoðann þess merki að hann hafi búið í húsinu sjálfur frá því hann festi kaup á því í haust.
Í færslunni segir Haraldur: „Eins og eflaust margir vita þá lenti ég í þeirri óskemmtilegu lífsreynslu að missa húsið mitt sem ég hafði nýlega fest kaup á, ásamt öllu mínu innbúi í eldsvoða þann 25. jan s.l. Þessi atburður markaði mikil og djúpstæð áhrif á mig þar sem litlu munaði að ég yrði sjálfur bráð eldsins. Fyrir einhverja óskiljanlega ástæðu vaknaði ég uppúr værum svefni og náði naumlega að átta mig á aðstæðum og koma mér út, án teljandi meiðsla, fyrir utan væga reykeitrun og nokkrar skrámur. Aðeins nokkrar sekúndur réðu þar úrslitum og á tímabili hélt ég að þetta væru mín örlög og endir.“
Í færslunni hvetur Haraldur alla til að hlúa að eldvörnum.
Ekki hefur náðst í Harald í síma þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
https://www.facebook.com/haraldur.palsson/posts/10226457420449643