Ian Wright, fyrrverandi leikmaður Arsenal, segist hafa áhyggjur af því hversu mikil ábyrgð sé sett á herðar hins unga Bukayo Saka, sem hefur slegið í gegn með Arsenal á þessu tímabili.
Saka er einungis 19 ára gamall og Arsenal treystir mikið á hans sköpun innan vallar. Saka hefur spilað 26 leiki fyrir Arsenal á tímabilinu.
„Þegar maður hefur í huga að Thomas Partey og Emile Smith Rowe þurftu að fara af velli í síðasta leik með krampa, þá setur það bara í samhengi hversu mikla vinnu þeir eru að leggja á sig.
Allir hafa áhygjur af Saka af því að hann er svo ungur og er með mikla ábyrgð á herðum sér hvað varðar að skapa færi í sóknarleik Arsenal. Það sama gildir um Smith Rowe og Martinelli þegar hann er heill. Þeir eru þó allir að skila sínu,“ sagði Ian Wright í viðtali á Optus Sport.
Wright er mikill aðdáandi á Saka og hefur ekki farið leynt með það á samfélagsmiðlum.
Arsenal er á mikilli siglingu í ensku úrvalsdeildinni um þessar mundir eftir skelfilega byrjun á tímabilinu. Liðið hefur ekki tapað í sjö leikjum í röð og Saka gaf stoðsendingu og skoraði mark í 3-1 sigri liðsins gegn Southampton í gær.